Innlent

Atvinnurekstri skipt út fyrir atvinnulíf

Hulda Bjarnadóttir
Hulda Bjarnadóttir
Félag kvenna í atvinnurekstri (FKA) skipti um nafn á aðalfundi í vikunni og heitir nú Félag kvenna í atvinnulífinu. Á sama fundi var ákveðið að félagið LeiðtogaAuður yrði framvegis starfrækt sem fagdeild innan FKA.

„Fyrstu árin var félagið eingöngu hugsað fyrir konur sem áttu fyrirtæki. Þessu var breytt árið 2008 og þá var opnað fyrir inngöngu þeirra kvenna sem gegna leiðtoga- og stjórnunarstöðum í atvinnurekstri,“ segir Hulda Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri FKA, um nýja nafnið, sem þykir lýsa tilgangi þess og starfsemi betur í dag. „Hér er því í raun um rökrétt framhald að ræða því með þessu náum við að sameina konur í rekstri hvort heldur sem þær eiga fyrirtækin eða reka þau fyrir aðra“

LeiðtogaAuður varð til í tengslum við verkefnið Auður í krafti kvenna sem stóð yfir á árunum 2000 til 2003. Félagskonur eru nú um 120 og langflestar þeirra í stjórnendastöðum hjá stórum og meðalstórum fyrirtækjum. FKA var stofnað árið 1999 og hefur markmið félagsins frá upphafi verið að gæta hagsmuna, efla samstöðu og samstarf kvenna í atvinnurekstri. Um 700 konur eru skráðar í félagið.

Í stjórn FKA eru Hafdís Jónsdóttir, formaður, Bryndís Emilsdóttir Ingibjörg Gréta Gísladóttir Ingibjörg Guðmundsdóttir, Marín Magnúsdóttir, Rúna Magnúsdóttir og Svava Johansen.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×