Innlent

Ólíklegt að kosningarnar verði ógiltar

BBI skrifar
Þó að framkvæmd atkvæðagreiðslu fatlaðra í forsetakosningunum á laugardag gæti talist ágalli á kosningunum er ólíklegt að það leiði til ógildingar þeirra. Þetta segir Bryndís Hlöðversdóttir, rektor Háskólans á Bifröst.

Lögum samkvæmt eiga aðstoðarmenn fatlaðra í kosningum að koma úr röðum kjörstjórnar. Fram hefur komið í fréttum Vísis að Freyja Haraldsdóttir naut liðsinnis eigin aðstoðarmanns í kjörklefa. „Mér sýnist vissulega að það geti talist annmarki á kosningunum að framkvæmdin hafi verið svona með mismunandi hætti," segir Bryndís.

Hins vegar telur Bryndís að þó þetta geti talist annmarki sé hæpið að það eitt valdi ógildingu. Hún ber málið saman við ógildingu Hæstaréttar á stjórnlagaþingskosningunni.

Þá mat Hæstiréttur heildstætt nokkra annmarka: í fyrsta lagi hvort skilrúm á kjörstað þá væru nógu há, í öðru lagi númeramerkingu seðlanna, í þriðja lagi umbúnaður kjörkassanna sem talin var draga úr leynd kosninganna og í fjórða lagi að talning atkvæða hafi ekki farið fram fyrir opnum dyrum.

„Þetta voru því fjórir annmarkar sem töldust verulegir. Svo var tekið fram að annmarkarnir allir væru metnir heildstætt og með vísan til þeirra allra yrði ekki hjá því komist að ógilda kosninguna," segir Bryndís.

Í sjónvarpsfréttum Rúv í gær taldi hæstaréttarlögmaðurinn Ragnar Aðalsteinsson allar líkur á því að kosningarnar yrðu metnar ógildar ef þær yrðu kærðar, vegna framkvæmdar við atkvæðagreiðslu fatlaðra. Hann taldi hana ekki standast stjórnarskrá.

Bryndís tekur ekki undir þetta. Hún telur með vísan til laga að hver sem er geti kært kosninguna og ekki þurfi til þess sérstaka lögvarða hagsmuni. Hins vegar finnst henni ólíklegt að það leiði til ógildingar ef ekkert annað kemur til.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×