Handbolti

Guðmundur Guðmundsson: Tek ekki þátt í umræðu manna úti í bæ

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Þórður Guðmundsson
Guðmundur Þórður Guðmundsson Nordicphotos/Getty
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, ræddi málefni Alexanders Peterssonar í Boltanum á X-inu 977 í dag. Alexander hefur, líkt og greint var frá á Vísi í dag, ákveðið að gefa ekki kost á sér í íslenska landsliðið vegna langvarandi meiðsla á öxl.

Hægt er að hlusta á viðtalið við Guðmund í spilaranum hér til hliðar.

Alexander spilar undir stjórn Guðmundar hjá Löwen og var lykilmaður í íslenska landsliðinu í tíð Guðmundar. Alexander gaf kost á sér í íslenska landsliðið á EM í Serbíu fyrir tæpu ári en spilaði lítið vegna meiðsla. Hjörtur Hjartarson, stjórnandi Boltans, spurði Guðmund hvort málum hefði verið öðruvísi háttað í því tilfelli fyrst Alexander gaf kost á sér.

„Hvort það var alveg eins, eins slæmt veit ég ekki. Hann ákvað allavega að gefa kost á sér þá og það reyndist honum mjög erfitt að beyta sér á fullu," segir Guðmundur og minnti á að Alexander hefði verið frá vegna meiðsla þegar íslenska landsliðið lék í forkeppni Ólympíuleikanna í Króatíu í apríl.

„Í gegnum tíðina hafa sumir landsliðsmenn lent í því að geta ekki gefið kost á sér vegna meiðsla. Ólafur Stefánsson hefur verið í þessari stöðu og ég var sjálfur landsliðsþjálfari þegar það kom upp. Maður verður að virða það og hluta á leikmennina þegar þeir treysta sér ekki. Þetta eru ekki vélmenni. Þetta eru manneskjur," segir Guðmundur. Hann gaf lítið fyrir umræðu „manna úti í bæ" sem velt hafa fyrir sér hvort Alexander hafi verið undir meiri þrýstingi að gefa kost á sér í Serbíu en nú.

„Ég veit ekkert hvaða menn það eru. Það er auðvitað alltaf hægt að segja að segja svona. Þá bara segja þeir það. Það hefuru ekkert með þetta að gera. Ég ætla ekki einu sinni að taka þátt í að ræða það. Þetta er gjörsamlega út úr korti. Svona samsæriskenningar eiga ekki rétt á sér," segir Guðmundur sem var greinilega ósáttur við spurninguna.

„Meina þessir "menn" úti í bæ að Alex sé þá ekki að segja sannleikann? Hvaða þvæla er þetta? Það er ekki hægt að taka þátt í svona umræðu," sagði Guðmundur.

„Þá bara ræða menn úti í bæ það. Þeim er það frjálst. Ég get ekki tekið þátt í að ræða einhverja svona vitleysu," sagði Guðmundur en bætti við:

„Hann hefur átt mjög erfitt uppdráttar hér síðastliðnar fjórar vikur. Læknar landsliðsins vita nákævmlega hver staðan á öxlinni á honum er. sjúkraþjálfar landsliðsins vita það líka, Einar Þorvarðars veit það líka og Aron Kristjánsson ætti að vita það líka eftir samtöl, sem ég geri ráð fyrir að hann hafi átt við Alex. Hann er væntanlega búinn að gera honum grein fyrir sinni stöðu. Það er það sem máli skiptir," sagði Guðmundur og minnti á að erfitt hefði verið að sleppa Ólafi Stefánssyni þegar hann gaf ekki kost á sér í íslenska landsliðið á umræddu Evrópumóti í Serbíu. Hann sem landsliðsþjálfari hafi einfaldlega þurft að taka því.

„Svo geta menn úti í bæ og íþróttafréttamenn haft skoðanir á því. Sett fram einhverjar samsæriskenningar. Það er bara dapurlegt að væna þar með einn ástsælasta og besta handboltamann sögunnar á Íslandi um eitthvað slíkt."

Alexander greindi frá ákvörðun sinni í viðtali við Vísi sem birtist í morgun. Tengil á viðtalið má sjá hér að neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×