Handbolti

Ólafur svaraði kalli Arons

Ólafur Stefánsson er í 23. manna hópnum fyrir HM á Spáni sem landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson tilkynnti í gær.

„Hann verður fyrir aftan Ásgeir (Örn Hallgrímsson) og tilbúinn að leysa stöðuna hægra megin fyrir utan," segir Aron. Ólafur hafði lagt landsliðsskóna á hilluna en í ljósi meiðsla Alexanders opnaði Ólafur á möguleikann á að koma íslenska landsliðinu til aðstoðar.

„Fyrst hann var búinn að ákveða að halda áfram að spila í Katar fannst mér ekkert því til fyrirstöðu að ræða við hann. Ég ræddi við hann og heyrði að hann hefur haldið sér í góðu formi. Hann er í mjög góðu líkamlegu formi en vantar aðeins upp á að fá öxlina í gang og fínpússa þessar handboltahreyfingar. Ég hef trú á því að það komi," segir Aron.

Karlalið Vals og Hauka æfðu sameiginlega á fimmtudagskvöldið og tók Ólafur fullan þátt í æfingunni.

„Ólafur var með og leit ágætlega út," segir Aron. Landsliðið kemur saman til æfinga 27. desember og leikur æfingaleiki við Túnis dagana tvo á eftir. Leikmenn fá fjögurra daga frí yfir áramótin áður en æfingar hefjast að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×