Handbolti

Þórir og norsku stelpurnar ekki í vandræðum með Ungverja

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Camilla Herrem fagnar.
Camilla Herrem fagnar. Mynd/AFP
Norska kvennalandsliðið í handbolta er komið í úrslitaleik Evrópumótsins í Serbíu eftir sannfærandi ellefu marka sigur á Ungverjalandi, 30-19, í undanúrslitaleik þjóðanna í Belgrad í dag. Norska liðið mætir annaðhvort Serbíu eða Svartfjallalandi í úrslitaleiknum á morgun.

Íslendingurinn Þórir Hergeirsson þjálfar norska liðið en hann og stelpurnar eiga möguleika á því að vinna fjórða stórmótið í röð. Þetta er ennfremur sjötta Evrópumótið í röð þar sem norska liðið spilar til úrslita en liðið getur unnið fimmta Evrópumeistaratitilinn í röð á morgun.

Anja Edin skoraði sex mörk í leiknum og Linn-Kristin Riegelhuth Koren og Camilla Herrem voru með 5 mörk hvor. Katrine Lunde Haraldsen varði síðan 12 skot í markinu.

Sigur norska liðsins var aldrei í hættu eftir frábæran sprett í lok fyrri hálfleiks og annar góður sprettur í seinni hálfleik kláraði endanlega leikinn en þær komust mest tólf mörkum yfir.

Liðin skiptust á að hafa forystuna í upphafi leiks en ungverska liðið náði síðan tveggja marka forystu, 9-7, þegar 17 mínútur voru liðnar af leiknum.

Þá fóru norsku stelpurnar í gang því þær skoruðu fjögur mörk í röð á tæpum þremur mínútum og komust yfir í 11-9. Norska liðið vann síðustu þrettán mínútur hálfleiksins 9-2 og var með fimm marka forskot í hálfleik, 16-11.

Norsku stelpurnar skoruðu fyrsta mark seinni hálfleiksins (17-11) en Ungverjar gáfust ekki upp, svöruðu með þremur mörkum í röð og minnkuðu muninn í 17-14.

Norska liðið var hinsvegar mun sterkara og gerði nánast út um leikinn með því að skora næstu fjögur mörk og komast í 21-14. Sigur norsku stelpnanna var aldrei í hættu eftir það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×