Handbolti

Svartfjallaland í úrslitaleikinn á öðru stórmótinu í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katarina Bulatovic
Katarina Bulatovic Mynd/AFP
Norðmenn mæta Svartfjallalandi í úrslitaleiknum á Evrópumóti kvenna í handbolta í Serbíu eftir að Svartfellingar unnu dramatískan eins marks sigur á Serbíu, 27-26, í seinni undanúrslitaleiknum í Belgrad í kvöld. Norðmenn unnu 11 marka sigur á Ungverjum í fyrri undanúrslitaleik dagsins og geta unnið fimmta Evrópumeistaratitilinn í röð á morgun.

Þetta er annað stórmótið í röð sem Norðmenn og Svartfjallaland mætast í úrslitaleik á stórmóti en norsku stelpurnar unnu 26-23 sigur í úrslitaleik þjóðanna á Ólympíuleikunum í London í sumar. Svartfjallaland var með íslenska landsliðinu í riðli á EM.

Heimakonur í serbneska landsliðinu fengu tækifæri til að tryggja sér framlengingu í lokin en Marina Vukevic varði lokaskotið á glæsilegan hátt og tryggði Svartfjallalandi endanlega sæti í úrslitaleiknum.

Milena Knezevic skoraði átta mörk fyrir Svartfjallaland þar á meðal mikilvæg mörk á lokakaflanum. Stórskyttan Katarina Bulatovic var næst markahæst með sex mörk.

Serbar skoruðu tvö fyrstu mörkin en þá tóku Svartfellingar yfirhöndina og komust í 8-4 með frábærum tólf mínútna spretti. Serbar svöruðu með mjög góðum kafla og þær serbnesku náðu mest þriggja marka forskoti, 14-11, þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Svartfjallaland náði að minnka muninn í eitt mark fyrir hálfleik, 14-13.

Svartfellingar skoruðu fjögur af fimm fyrstu mörkum seinni hálfleiksins og komust í 18-16 og voru 21-19 yfir þegar 16 mínútur voru eftir. Serbar náði að jafna í 21-21 og 22-22 en Svartfellingar náðu þá aftur tveggja marka forskoti, 24-22, þegar átta mínútur voru eftir.

Svartfjallaland hélt frumkvæðinu út leikinn en var þó næstum því búið að missa leikinn í framlengingu í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×