Handbolti

Svartfjallaland Evrópumeistari kvenna

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
MYND/AFP
Svartfjallaland sigraði Noreg 34-31 í tví framlengdum úrslitaleik í Evrópumeistaramótinu í handbolta í Serbíu í dag. Sigurganga Noregs var þar með stöðvuð en liðið hafði unnið fimm Evrópumót kvenna í röð.

Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu. Liðin skiptust á að leiða leikinn og aðeins einu sinni munaði þremur mörkum á liðunum. Svartfjallaland komst í 15-12 eftir fjórar mínútur í seinni hálfleik en Svartfellingar voru einu marki yfir í hálfleik 12-11.

Noregur komst yfir 19-18 þegar 16 og hálf mínúta var til leiksloka. Liðin skiptust á að skora allt þar til Svartfjallaland komst yfir 24-23 þegar hálf mínúta var eftir af venjulegum leiktíma. Ida Alstad jafnaði metin níu sekúndum fyrir lok venjulegs leiktíma og tryggði Noregi framlengingu.

Svartfjallaland skoraði tvö fyrstu mörk framlengingarinnar og í raun einu mörk fyrri hálfleiks framlengingarinnar og því var staðan 26-24 þegar seinni hálfleikur framlengingarinnar hófst.

Noregur vaknaði til lífsins fyrr en Svartfjallaland var komið þremur mörkum yfir og náði á ótrúlegan hátt að jafna metin í 28-28 þegar 13 sekúndur voru eftir af fyrri framlengingunni.

Enn var jafnt að loknum fyrri hálfleik seinni framlengingarinnar 30-30. Noregur komst yfir í fyrsta sinn í framlengingunum 31-30 þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af framlengingunni.

Svartfellingar svöruðu með fjórum mörkum í röð og tryggðu sér Evrópumeistaratitilinn í fyrsta sinn.

Þórir Hergeirsson þjálfari Noregs varð þar með að sætta sig við silfur eftir að hafa stýrt liði sínu til sigurs á þremur stórmótum í röð, Evrópumeistaramóti, Heimsmeistaramóti og Ólympíuleikunum í London í ágúst.

Milena Knezevic fór mikinn í liði Svartfjallalands og skoraði 10 mörk. Andjela Bulatovic skoraði 8 og Jovanka Radicevic skoraði 5. Sonja Barjaktarovic fór á kostum í markinu og varði 17 skot.

Ida Alstad stóð upp úr í sóknarleik Noregs og skoraði 11 mörk. Heidi Loke skoraði fimm og Anja Edin 4 en Edin var valinn besti leikmaður mótsins. Katrine Lunde Haraldsen varði 16 skot í markinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×