Handbolti

Rakel Dögg: Þurfum að vera með brjálaða vörn

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. Mynd/Stefán
Rakel Dögg Bragadóttir er komin aftur inn í íslenska kvennalandsliðið í handbolta eftir tæplega árs fjarveru vegna meiðsla. Hún segir íslenska liðið koma vel undirbúið til leiks á EM í Serbíu en fyrsti leikurinn er á móti Svartfjallalandi í kvöld.

„Við erum búnar að æfa vel og fengum þrjá mjög góða leiki um helgina þar sem við náðum að fara yfir hlutina. Við erum vel undirbúnar, tökum tvo fundi í dag og æfingu í kvöld og þá held ég að við séum nokkuð klárar og vel settar fyrir leikinn á morgun," sagði Rakel í gær.

„Þetta er þriðja árið í röð þar sem við erum að fara á stórmót og við erum búnar að spila marga leiki saman. Við höfum reynslu og það getur hjálpað okkur helling. Að sama skapi vitum við það að við erum litla liðið í þessum riðli og við þurfum að eiga toppleik á móti þessum þjóðum. Þetta eru virkilega sterkar þjóðir sem við erum að mæta og við erum alveg meðvitaðar um það. Við þurfum að vera klárar í leikinn á morgun ef við ætlum okkur einhverja hluti," segir Rakel en góður árangur á HM í Brasilíu þýðir meiri væntingar fyrir þessa keppni.

„Maður finnur alveg fyrir því. Við sjálfar erum líka að að gera okkur meiri væntingar og setja meiri pressu á okkur sjálfar. Við sjáum það á HM í Brasilíu í fyrra að okkur gekk vel og við náðum að koma á óvart. Við erum búnar að spila marga góða leiki síðustu ár þar sem við erum að sjá það að við erum að standa í þessum þjóðum. Við erum að nálgast þær og eigum helling í þessi lið. Við vitum það að á góðum degi getum við unnið og gert góða hluti," segir Rakel Dögg.

Íslenska liðið vann Svartfjallland í fyrsta leik á HM í Brasilíu í fyrra og Rakel veit að andstæðingar kvöldsins eru ekki búnar að gleyma þeim leik.

„Ég held að þær hafi verið virkilega svekktar eftir leikinn í Brasilíu og þær sjálfar hafa örugglega bara orðið hissa á úrslitunum. Þær ætla sér örugglega að koma í veg fyrir svoleiðis niðurlægingu aftur. Við þurfum bara að vera ennþá einbeittari og ennþá beittari í okkar aðgerðum til þess að vinna þær," segir Rakel.

„Þetta snýst eiginlega allt um það að við þurfum að vera með brjálaða vörn. Við þurfum að spila virkilega góða vörn og fá markvörsluna með. Við þurfum að keyra upp og fá auðveld mörk og svo þurfum við að halda tæknifeilum í lágmarki. Þetta er eiginlega alltaf uppskriftin ef við ætlum að vinna þessar þjóðir," segir Rakel og íslenska liðið sýndi á sér tvær hliðar í leikjunum við Tékka um helgina.

„Það var bara eiginlega svart og hvítt hjá okkur. Í fyrri leiknum vorum við að gera mikið af tæknifeilum og aulamistökum. Við vorum ekki að fá mörk úr hraðaupphlaupum en bættum þetta mikið í seinni leiknum. Við vorum með miklu færri tæknifeila og fengum líka hraðaupphlaup. Vörnin var fín í báðum leikjunum en við þurfum að stóla á þessa hluti í leikjunum framundan," sagði Rakel.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×