Handbolti

Kúabjöllur Norðmanna bannvara á EM í Serbíu

Sigurður Elvar Þórólfsson skrifar
Heidi Löke, línumaður Noregs, skorar hér gegn Serbum á EM í gær.
Heidi Löke, línumaður Noregs, skorar hér gegn Serbum á EM í gær. Nordic Photos / Getty Images
Evrópumeistaralið Noregs, sem Þórir Hergeirsson þjálfar, hóf titilvörnina á Evrópumeistaramóti kvenna í handbolta í Serbíu í gær með 28-26 sigri gegn gestjöfunum frá Serbíu. Norðmenn voru með fimm marka forskot í hálfleik en heimaliðið náði að jafna metin þegar átta mínútur voru eftir af leiknum. Katrine Lunde Haraldsen markvörðu norska liðsins bjargaði málunum fyrir Noreg á lokamínútum leiksins.

Að venju er gríðarlega stór hópur sem fylgir norska landsliðinu á þetta mót. Kúabjöllur hafa verið helsta einkenni stuðningsmanna Noregs í gegnum tíðina en í Serbíu ríkir „kúabjöllubann" í keppnishöllunum. Gríðarlega strangt öryggiseftirlit er á keppnisstöðunum og fá áhorfendur ekki að taka með sér flögg, fána, myndavélar og kúabjöllur svo eitthvað sé nefnt.

Í Serbíu er bannað að taka slíka hluti með sér á flesta íþróttaviðburði – enda er það vel þekkt að áhofendur kasti öllu lauslegu inn á keppnisvellina ef þeim mislíkar það sem fer þar fram.

Kúabjöllurnar hafa verið einkenni stuðningsmanna norska handboltalandsliðsins frá því á Ólympíuleikunum í Seoul árið 1988 eða í 24 ár.

Það er ekki öll von úti um að kúabjöllutónar verði hluti af EM stemningunni hjá Norðmönnum á þessu stórmóti. Samkvæmt frétt NRK verða kúabjöllurnar skoðaðar af öryggisvörðum keppninnar í dag – og að þeirri úttekt verður tekin ákvörðun hvort þær verði leyfðar í keppnishöllunum á EM.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×