Handbolti

Ágúst: Við erum ekkert hætt

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Mynd/Stefán
Það fór ekki vel í íslensku stelpurnar að vera barðar eins og harðfiskur í leiknum á móti Svartfjallalandi í gær. Leikmenn Svartfjallalands voru í hefndarhug og létu heldur betur finna fyrir sér og það hjálpaði ekki íslenska liðinu að hvít-rússnesku dómararnir tóku ekki hart á framgöngu Svartfellinga.

Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var ekki að kvarta yfir dómgæslunni en heimtaði frekar meiri grimmd hjá sínum stelpum en framundan er gríðarlega mikilvægur leikur við Rúmeníu í kvöld.

„Við bökkuðum aðeins út úr þessu og vorum ekki tilbúin að taka slaginn. Við létum þær berja á okkur í staðinn fyrir að taka slaginn alla leið. Við hörfuðum aðeins undan þeim og við eigum ekki möguleika í þessi lið þannig. Þetta eru líkamlega sterk lið, stelpur sem eru 180 og 185 sm og 80 til 90 kíló. Við þurfum að vera tilbúnar í slaginn og ég hef trú á því að það verði á morgun (í kvöld)," sagði Ágúst Jóhannsson.

„Við vonum að Svartfjallaland klári bara sitt og að við fáum þokkalegar innbyrðistölur í framhaldinu hjá okkur. Við sjáum til en við erum ekkert hætt," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×