Handbolti

Þær rúmensku eru þungar og líkamlega sterkar

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Rúmeníu í kvöld í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í Serbíu. Liðið tapaði með tíu mörkum á móti Svartfjallalandi í gær og þarf því nauðsynlega að fá eitthvað út úr leik kvöldsins.

Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins, var farinn að hugsa um Rúmeníuleikinn strax eftir leikinn við Svartfjallaland í gærkvöldi. Er Rúmenía með svipað samsett lið og Svartfjallaland?

„Auðvitað eru alltaf einhverjar áherslubreytingar og áherslumunur. Rúmenar eru með frábært lið, þungar og líkamlega sterkar. Við vitum að það verður erfitt en við vissum það fyrirfram að helst þyrftum við eitt eða tvö stig út úr fyrstu tveimur leikjunum. Það hefur ekkert breyst, við mætum á morgun (í kvöld) og seljum okkur dýrt. Við ætlum okkur að fá betri útkomu heldur en þetta," sagði Ágúst Jóhannsson.

„Við vitum það að við þurfum að fá eitthvað út úr leiknum. Við undirbúum okkur sem mest og ætlum að hugsa um okkar leikplan en ekki að hugsa of mikið um að vinna eða tapa. Við ætlum að vinna en einbeitingin verður að vera á okkar leikskipulag og að undirbúa okkur vel, mæta einbeittar og vel stemmdar í leikinn og þá er aldrei að vita hvað gerist," sagði Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×