Handbolti

Fjögur og hálft ár síðan stelpurnar mættu Rúmeníu

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Mynd/Stefán
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta mætir Rúmeníu í kvöld í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í Serbíu en íslenska liðið tapaði illa fyrir sterku liði Svartfjallalands í gær.

Ísland hefur ekki mætt Rúmeníu hjá A-landsliðum kvenna síðan í júní 2008 þegar þjóðirnar mættust í tveimur umspilsleikjum um sæti á EM 2008.

Rúmenar unnu báða leikina örugglega, fyrst 37-23 í Laugardalshöllinni og svo 33-23 út í Rúmeníu. Rúmenska landsliðið endaði síðan í fimmta sætinu á EM 2008.

Níu leikmenn í íslenska liðinu í dag spiluðu þessa leiki en það voru þær Arna Sif Pálsdóttir (seinni leikur), Karen Knútsdóttir (seinni leikur), Rakel Dögg Bragadóttir, Stella Sigurðardóttir, Dagný Skúladóttir, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir (fyrri leikur), Rut Jónsdóttir (fyrri leikur), Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Hanna Guðrún Stefánsdóttir.

Hanna Guðrún Stefánsdóttir var markhæst í báðum leikjum með fimm mörk en Dagný skoraði einnig fimm mörk í fyrri leiknum.

Ísland vann síðast Rúmeníu á æfingamóti í Hollandi í október 2005 eða fyrir meira en sjö árum síðan. Íslenska liðið vann þann leik 27-26. Hrafnhildur Ósk Skúladóttir, Hanna Guðrún Stefánsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir voru allar með í þeim leik og skoruðu þær tvær síðarnefndu fjögur mörk í leiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×