Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Rúmenía 19-22 | Annað tap hjá stelpunum

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Mynd/stefán
Íslenska kvennalandsliðið tapaði með þremur mörkum á móti Rúmeníu, 19-22, í öðrum leik sínum á Evrópumótinu í handbolta í Serbíu. Íslenska liðið spilar lokaleik sinn í riðlinum á móti Rússlandi á föstudaginn en á enn möguleika á því að komast áfram með sigri í þeim leik.

Íslenska liðið byrjaði leikinn mjög vel og komst þremur mörkum yfir, 8-5, eftir tíu mínútur en Rúmenar tóku síðan frumkvæðið og voru tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13-15. Íslenska liðið spilaði frábæra vörn í seinni hálfleik og náði að jafna metin á ný eftir að hafa ekki fengið á sig nema tvö mörk á fyrstu 19 mínútum hálfleiksins.

Ólíkt leiknum í gær hjá Rúmeníu þá héldu þær rúmensku út og tryggðu sér xx marka sigur með góðum endaspretti þar sem lítið gekk upp hjá íslensku stelpunum í sókninni. Góð vörn og markvarsla í seinni hálfleik skilaði engum auðveldum mörkum enda tapaði íslenska liðið rosalega mörgum boltum í hröðum sínum sínum.

Rut Jónsdóttir skoraði fimm mörk fyrir Ísland og Hrafnhildur Skúladóttir var með fjögur þar af þrjú af vítalínunni. Jenný Ásmundsdóttir fann sig ekki í markinu í fyrri hálfleik en varði mjög vel í þeim síðari.

Íslensku stelpurnar skoruðu í tveimur fyrstu sóknum sínum og komust í 1-0 og 2-1 en svo kom ekki mark í tæpar fjórar mínútur og rúmenska liðið náði forystunni.

Gott mark frá Rut Jónsdóttur og flott stoðsending hjá henni inn á Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur í næstu sókn á eftir kveikti neista og Dagný Skúladóttir kom síðan Íslandi aftur yfir með marki úr hraðaupphlaupi. Rut jók síðan muninn í 6-4 með þriðja marki Íslands í röð þegar níu mínútur voru liðnar.

Rut var allt í öllu á þessum kafla og kom íslenska liðinu þremur mörkum yfir, 8-5, með tveimur laglegum mörkum á stuttum tíma. Rut var þá komin með fjögur mörk og eina stoðsendingu á fyrstu 12 mínútum leiksins og þjálfari Rúmena tók leikhlé.

Þær rúmensku voru fljótar að minnka muninn í eitt mark eftir leikhléið en tvö lagleg mörk Þóreyjar Rósu Stefánsdóttur úr horninu héldu muninum í tveimur mörkum. Íslensku stelpurnar fóru svo illa að ráði sínu í sókninni og Rúmenar komust yfir í 11-10 með þremur hraðaupphlaupsmörkum í röð.

Ágúst Jóhannsson tók leikhlé þegar Rúmenía var búið að skora fjögur mörk í röð og komast í 12-10 en þá voru tæpar níu mínútur til leikhlés. Íslenska liðið var manni færri á þessum kafla en Karen Knútsdóttir náði engu að síður að skora mikilvægt mark eftir laglega stoðsendingu frá Hrafnhildi Skúladóttur og minnka muninn aftur í eitt mark, 12-11. Hrafnhildur jafnaði síðan í 12-12 á vítalínunni eftir hraðaupphlaup.

Íslenska liðinu lenti strax aftur tveimur mörkum undir og tókst ekki að skora á síðustu tveimur mínútum hálfleiksins. Ísland var því tveimur mörkum undir í hálfleik, 13-15. Sóknarnýtingin var betri en kvöldið áður en Guðný Jenný Ásmundsdóttir náði hinsvegar aðeins að verja 3 af 18 skotum sem komu á hana í fyrri hálfleiknum.

Ramune Pekarskyte fékk að spreyta sig í upphafi seinni hálfleik en gekk ekkert betur en í fyrsta leiknum og var strax komin á bekkinn aftur.

Baráttan var í fyrirrúmi á upphafsmínútum hálfleiksins og fyrsta markið kom ekki fyrr en eftir sjö og hálfa mínútu en það skoraði Rut af harðfylgni og minnkaði muninn í eitt mark.

Jenný varði vel á þessum kafla, þar á meðal vítakast, og rúmenska sóknin fór að hiksta. Hrafnhildur jafnaði metin í 15-15 úr víti og þá var íslenska liðið búið að vinna fyrstu 9 og hálfa mínútu hálfleiksins 2-0.

Rúmenar náði loksins að brjóta ísinn eftir tæpar tíu mínútur og komast yfir í 16-15 en Ramune skoraði þá glæsilegt mark og jafnaði metin í 16-16. Mikilvægt mark fyrir hana og íslenska liðið.

Jenný og vörnin var í ham á þessum fyrstu 14 mínútum hálfleiksins en sóknin gekk áfram illa. Ágúst tók leikhlé þegar íslenska liðið var með boltann í stöðunni 16-16 og átti möguleika á því að komast yfir.

Ramune var nú búinn að finna taktinn og kom íslenska liðinu í 17-16 með flottu marki. Stelpurnar fengu tækifæri til að komast tveimur mörkum yfir en Rúmenar unnu boltann og jöfnuðu í 17-17.

Rúmenar komust yfir í 18-17 og voru þá enn með forystuna þrátt fyrir að hafa ekki skorað nema þrjú mörk í hálfleiknum á rúmum 20 mínútum. Ágúst tók síðan leikhlé eftir að rúmenska liðið vann boltann enn einu sinni og komst aftur tveimur tveimur mörkum yfir, 17-19, þegar átta og hálf mínúta var eftir.

Hrafnhildur skaut þá í stöngina úr vítakasti og rúmenska liðið komst í framhaldinu þremur mörkum yfir, 20-17. Hrafnhildur náði að minnka muninn í 20-18 þegar sex mínútur voru eftir.

Rúmenar tóku leikhlé þegar sex og hálf mínúta var eftir af leiknum og komst síðan aftur þremur mörkum yfir, 21-18. Dagný náði að minnka muninn í tvö mörk, 19-21, þegar íslenska liðið var manni færri en auðveldu mörkin komu aldrei þrátt fyrir góða vörn og markvörslu og rúmenska liðið náði að landa sigri og tryggja sér sæti í milliriðlinum.







Ágúst: Varnarleikurinn var frábær allan leikinn
Mynd/Stefán
Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska liðsins gat fagnað miklum framförum milli leikja en það vantaði örlítið upp á íslenska liðið fengi eitthvað út úr leiknum á móti Rúmeníu í kvöld.

„Þessi leikur var allt allt annar. Við erum að spila við erfiðar aðstæður á móti gríðarlega sterku liði. Varnarleikurinn var frábær allan leikinn og Jenný var frábær í seinni hálfleiknum. Við fáum á okkur sjö mörk í seinni hálfleiknum sem er hrikalega sterkt á móti svona góðu liði. Við erum því miður ekki að fá mikið út úr hraðaupphlaupunum og meðan við erum að spila svona þéttan og góðan varnarleik þá þurfum við að fá meira út úr þeim. Það er eitthvað sem við þurfum að kíkja á," sagði Ágúst.

„Sóknarleikurinn var mun betri í dag en heldur en á móti Svartfjallalandi en stelpurnar eru samt aðeins of staðar. Við þurfum að nýta kaflana sex á fimm betur. Við þurfum að vinna með þetta og notum tímann á morgun og föstudaginn til þess að laga þetta," sagði Ágúst og það sjá það allir að íslenska liðið þarf að fá fleiri auðveld mörk.

„Við þolum það ekki. Við þurfum fleiri mörk úr hraðaupphlaupum, tæknifeilarnir eru of margir og þá sérstaklega á lokakaflanum. Þetta er dýrt og það kostaði okkur mikið í dag," sagði Ágúst sem var ekki sáttur við danska dómaraparið.

„Þetta var bara leikur sem gat dottið beggja megin. Ég vil líka meina það að dómgæslan var mjög sérstök of á tíðum. Það var meðal annars flautað af okkur tvö mörk og það er dýrt í svona leik," sagði Ágúst.

„Það er leikur á föstudaginn á móti Rússum og það er bara úrslitaleikur. Við notum tímann á morgun til að fara vel yfir okkar hluti og hvíla því við þurfum að koma vel einbeitt í þann leik," sagði Ágúst.

Jenný: Við vorum svo ógeðslega nálægt þessu
Mynd/Stefán
Jenný Ásmundsdóttir, markvörður íslenska liðsins fann sig ekki í fyrri hálfleik en varði hinsvegar 7 af 14 skotum sem hún fékk á sig í seinni hálfleiknum.

„Það vantaði örlítið upp á og þetta var ekki alveg að falla okkar megin þrátt fyrir að við værum að vinna boltann í vörninni hvort sem það var varið eða að þær voru að tapa boltanum. Við náðum ekki að nýta það fram á við og vorum kannski ekki nógu fljótar að keyra upp. Við verðum að fara að taka okkur á með það," sagði Jenný Ásmundsdóttir.

„Ég held að hin liðin viti það að þetta er okkar aðalsmerki að reyna að vera fljótar upp. Þau spila kannski inn á þetta og eru fljótar að koma sér til baka. Mér finnst liðin hafa verið fljót að loka á hlaupaleiðirnar hjá okkur eins og gott dæmi er um þegar Hrabba fékk á sig ruðninginn. Þær vita að hún er að bera boltann upp hjá okkur og þær stilla sér upp í hlaupaleiðinni. Þetta er svo sem vel gert en mér fannst hún eiginlega hlaupa á Hröbbu og var ekki sammála þessum dómi," sagði Jenný.

„Við erum að spila betri leik en í gær. Ég hefði mátt hrökkva fyrr i gang og ég er ekki nógu ánægð með fyrri hálfleikinn hjá mér en mér fannst ég koma ágætlega inn í seinni," sagði Jenný og það er hægt að taka undir það enda varði hún þá helming skota sem komu á hana.

„Við vorum svo ógeðslega nálægt þessu að hálfa væri nóg. Það er voða grátlegt. Ég varði þarna víti í seinni hálfleik og hugsaði með mér: Við erum að fara að taka þær. Við vorum alltaf að vinna boltann en það gekk ekkert að fylgja því eftir í sókninni. Hún var náttúrulega frábær í hinu markinu líka og var að taka nokkur dauðafæri. Þær voru líka fastar fyrir í vörninni og við þurfum einhvern vegin að laga sóknina hjá okkur," sagði Jenný.

„Það er úrslitaleikur framundan um sæti í milliriðlinum. Við vissum alveg að þessi riðill væri erfiður. Við vitum það líka og höfum sýnt það að við getum unnið stóru þjóðirnar. Við erum alltaf að fara nær og nær. Nú höfum við einn dag til þess að hvíla okkur, æfa og þjappa okkur saman og mæta svo alveg dýrvitlausar á föstudaginn," sagði Jenný.

Hrafnhildur: Jákvætt að vera enn inn í mótinu og geta enn náð markmiðunum
Mynd/Stefán
Hrafnhildur Skúladóttir, fyrirliði íslenska liðsins, var mun atkvæðameiri í kvöld en í fyrsta leiknum á móti Svartfjallalandi. Hún eins og fleiri í liðinu gerði sig seka um alltof marga tæknifeila og þá sérstaklega í hröðum upphlaupum.

„Þessi mistök eru dýr. Við vorum svo virkilega farnar að hafa trú á þessu þegar við komust aftur yfir. Þær skora bara eitt mark á fyrstu sextán mínútunum í seinni hálfleik og það var bara allt lokað hjá okkur. Okkur vantaði bara að skora fleiri mörk á þessum kafla því höfðum tækifæri til að síga fram úr á þessum tímapunkti í leiknum," sagði Hrafnhildur.

„Við gerum of marga tæknifeila og þær gera reyndar alveg haug af þeim líka. Við náum ekki að refsa þeim fyrir sína en þær ná að refsa okkur meira fyrir okkar mistök," sagði Hrafnhildur.

„Þessi auðveldu mörk eru ekki að skila sér og við söknum þeirra mjög mikið. Við vitum alveg að við þurfum þessu auðveldu mörk til þess að geta unnið. Þau verða að koma og verða að vera fleiri," sagði Hrafnhildur en hvað er að klikka í hröðu sóknunum.

„Mér finnst bara vanta að við förum af stað og keyrum meira. Við erum alltof mikið af róa. Við virðumst líka alltaf vera að skipta þegar við eigum ekki að skipta. Við þurfum að byrja á því að keyra og svo getum við skipt. Við eigum þessi auðveldu mörk inni og þau eru okkur gríðarlega mikilvæg," sagði Hrafnhildur.

„Það jákvæða í stöðunni er að við fáum úrslitaleik því við hefðum allt eins getað verið úr leik núna ef leikurinn á undan hefði farið öðruvísi. Það er gríðarlega jákvætt að vera ennþá inn í mótinu og geta enn náð markmiðunum okkar," sagði Hrafnhildur.

Rut: Ég var orðin þreytt í seinni hálfleik
Mynd/Stefán
Rut Jónsdóttir var markahæst í íslenska liðinu með fimm mörk en þar af komu fjögur þeirra á fyrstu tíu mínútunum í fyrri hálfleik þegar hún fór á kostum.

„Þessi frábæra byrjun var ekki nóg. Það tók okkur langan tíma að skora í seinni hálfleik en þetta er svo svekkjandi af því að við vorum sorglega nálægt þessu," sagði Rut.

„Við vorum bara klaufar, hornamennirnir héldu ekki breiddinni og síðasta sending var bara léleg hjá okkur. Við vorum líka þreyttar í endann," sagði Rut en framundan er úrslitaleikur við Rússland um sæti í milliriðlinum.

„Það er ennþá möguleiki og það er leikur á föstudaginn. Við erum svekktar í kvöld en svo byrjum við bara að undirbúa okkur á morgun fyrir næsta leik," sagði Rut sem var mjög góð í fyrri hálfleiknum í kvöld.

„Það gekk sérstaklega vel í fyrri hálfleik og ég hefði viljað koma meira inn í seinni hálfleik en ég var bara orðin frekar þreytt ef ég á að vera alveg hreinskilin. Við þurfum að safna orku á morgun og vera tilbúnar á föstudaginn," sagði Rut.

Rakel: Leið allan tímann eins og við værum betri aðilinn
Mynd/Stefán
Rakel Dögg Bragadóttir gat ekki leynt gríðarlegum vonbrigðum sínum eftir leikinn á móti Rúmeníu í kvöld.

„Þetta er svo ógeðslega svekkjandi að tapa þessum leik því mér leið allan tímann eins og við værum betri aðilinn. Við náðum ekki að taka þetta skref og komast tveimur til þremur mörkum yfir. Við erum að gera alltof mikið af mistökum í sókninni hvort sem að það eru skotin eða tæknifeilarnir. Það er erfitt að vinna leiki þegar við gerum svona mörg mistök," sagði Rakel.

„Við verðum að fá fleiri hraðaupphlaupsmörk. Við erum að spila fína vörn og Jenný er aftur fín fyrir aftan. Þetta er bara sóknin og við verðum að laga þetta og höfum daginn á morgun til þess," sagði Rakel.

„Við erum að vinna boltann vel í vörninni og svo keyrum við af stað og hendum boltanum útaf, í hendurnar á þeim eða í lappirnar á okkur sjálfum. Þetta er alltof dýrkeypt og við verðum að fá þessi hraðaupphlaupsmörk ef við ætlum að eiga möguleika í þessar stóru þjóðir," sagði Rakel.

„Við erum ekki búin að ná þessum auðveldu mörkum, hvorki í dag né í gær. Við erum gjörsamlega háðar því að svo verði ekki á föstudaginn. Það jákvæða er að við eigum þennan úrslitaleik eftir sem ég tel að við eigum fulla möguleika í þó að þar sé á ferðinni hrikalega sterkur andstæðingur," sagði Rakel um úrslitaleikinn við Rússa á föstudaginn.

„Ég hef ennþá trú á þessu liði, við þurfum að nýta daginn á morgun vel, hvíla okkur og safna orku," sagði Rakel.

„Við höfum alltaf verið sterkar í að ná í þessi hraðaupphlaupsmörk. Við höfum verið góðar í því að keyra upp hraðann. Við verðum að fara yfir þetta á æfingu á morgun og leggja meiri áherslu á það. Við verðum líka að taka út þessa tæknifeila því þetta er alltof dýrt," sagði Rakel.

„Við erum að gera byrjendamistök síðustu fimm mínúturna og þetta eru svona mistök sem maður sér bara í sjötta flokki. Það er hreinlega ekki hægt að móti svona þjóð eins og Rúmeníu.

Þetta verður að lagast fyrir föstudaginn. Ég hef samt ekki of miklar áhyggjur af þessu því þetta kemur. Við Þurfum bara að fara aðeins yfir þetta á morgun, skoða vídeó og fara í gegnum þetta á æfingu," sagði Rakel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×