Handbolti

Karen: Þurfum að mæta með íslenska hjartað á móti Rússum

Óskar Ófeigur Jónsson í Vrsac skrifar
Karen Knútsdóttir.
Karen Knútsdóttir. Mynd/Stefán
„Það var eitthvað sem sagði mér að við ættum ekki að vinna þennan leik. Við gerðum allof mikið af aulamistökum en ef við lítum á það góða við þennan leik þá var þetta frábær framför á sólarhring," sagði Karen Knútsdóttir eftir tapið á móti Rúmeníu á EM kvenna í hansdolta í Serbíu í kvöld. Íslenska liðið tapaði leiknum 19-22 og þarf að vinna Rússa í lokaleiknum til þess að komast í milliriðilinn.

„Við þurfum að skora aðeins meira úr uppsettum sóknarleik og keyra aðeins meira á þær. Vörnin stendur fínt og Jenný var fín í markinu og mér fannst vera frábær kraftur í Rut til þess að byrja með. Við hefðum þurft að fylgja með og það hefði þurft meiri heppni til þess að fá allavega eitt stig út úr þessum leik," sagði Karen.

„Við erum að klúrað sendingunum fram á fríu hornamennina og það er svo dýrt. Það tapast svo mikil orka í svona rosalega erfiðum leik. Það er niðurbrjótandi fyrir okkur og við þurfum að fá nokkur auðveld mörk. Eitt til tvö slík mörk í sitthvorum hálfleik hefðu skipt sköpum fyrir okkur í þessum leik. Við getum hlaupið en þurfum bara að koma boltanum af stað og drulla okkur upp völlinn," sagði Karen.

„Það er mjög fínt að fá bara á sig 22 mörk en við náum bara að skora sex mörk í seinni hálfleik. Seinni hálfleikurinn byrjaði mjög illa sóknarlega hjá báðum liðum. Það var 1-0 fyrir okkur eftir tíu mínútur og við bara verðum að nýta okkur svona kafla betur. Við þurfum að hafa svo mikið fyrir öllum mörkum að við getum ekki verið að klúðra svona miklu því við töpum svo mikilli orku á þessu," sagði Karen.

„Það þýðir ekkert að hengja haus yfir þessu. Það er bara hreinn úrslitaleikur á föstudaginn. Við þurfum að taka það góða með okkur, vörnin var fín og Jenný var góð. Sóknarleikurinn var betri og það var meira flæði og aðeins hraði hjá okkur núna. Nokkur mörk á fyrsta og öðru tempói með og þá kemur þetta," sagði Karen.

„Nú fáum við góðan dag til að hugsa vel um okkur og rífa sjálfstraustið upp. Við þurfum bara að mæta með íslenska hjartað á móti Rússum og hafa trú á þessu. Það bíður okkar bara úrslitaleikur við Rússa annað árið í röð," sagði Karen að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×