Handbolti

Þjálfari Serbíu tók þátt í varnarleiknum frá hliðarlínunni

Sasa Boskovic, þjálfari kvennalandsliðs Serbíu, gæti átt von á keppnisbanni eftir atvik sem átti sér stað í fyrsta leik liðsins á Evrópumeistaramótinu í handbolta sem fram fer í Serbíu.

Boskovic stóð við hliðarlínuna á lokamínútunum í opnunarleiknum gegn Evrópumeistaraliði Noregs. Og þar greip hann í keppnistreyju og hönd hægri hornamanns Noregs, Linn Jørum Sullands, þar sem hún stóð inni á vellinum og beið eftir því að fá boltann.

Þórir Hergeirsson þjálfari norska landsliðsins sagði í viðtali við TV2 eftir leikinn að leikmaðurinn hafi í fyrstu verið afar hissa. „Hún varð hissa en síðar varð hún afar reið," sagði Þórir m.a. í viðtalinu.

Norska landsliðið hefur tilkynnt um atvikið til aganefndar EHF og er gert ráð fyrir að greint verði frá niðurstöðu aganefndar síðar í dag. Handboltasérfræðingar NRK segja að þriggja leikja bann sé algjört lágmark fyrir þjálfarann en besta lausnin væri að útiloka þjálfarann algjörlega frá keppninni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×