Gagnrýni

Að klappa eða klappa ekki

Jónas Sen skrifar
Elísabet Waage
Elísabet Waage
Hádegistónleikar í Salnum

Matthías Nardeu og Elísabet Waage fluttu verk eftir Couperin og Devienne

Miðvikudagurinn 14. nóvember





Hádegistónleikar njóta vinsælda og það er töluverð fjölbreytni í boði. Gerrit Schuil píanóleikari spilar t.d. með söngvurum á nokkurs konar óvissutónleikum í Fríkirkjunni; maður veit aldrei fyrir fram hvaða söngvari það er.

Einnig eru hádegistónleikar haldnir reglulega í Hörpu og í Salnum í Kópavogi. Hinir síðarnefndu bera heitið Líttu við í hádeginu. Listrænn stjórnandi þeirra er Guðrún Birgisdóttir flautuleikari.

Um er að ræða sex tónleika sem dreift er yfir veturinn. Á þrennum þeirra kemur Guðrún sjálf fram, eða einhver úr fjölskyldu hennar. Óneitanlega lyktar það af frændhygli. Ekki það að fjölskyldumeðlimirnir séu ekki hljóðfæraleikarar í fremstu röð. En það eru margir aðrir frábærir tónlistarmenn á Íslandi.

Á heimasíðu Salarins voru tónleikarnir sagðir hefjast klukkan 12.15 á miðvikudaginn. Þegar ég gekk þangað inn klukkan átta mínútur yfir tólf var dagskráin þó þegar byrjuð. Hljóðfæraleikararnir voru á sviðinu og voru að kynna hljóðfærin og það sem var í vændum. Ég gat ekki séð að þetta væri auglýst á heimasíðunni, sem var auðvitað bagalegt.

Hljóðfæraleikararnir voru Elísabet Waage hörpuleikari og Matthías Nardeau óbóleikari, sonur Guðrúnar. Enga tónleikaskrá var að fá og áheyrendur höfðu greinilega verið upplýstir um hvað átti að flytja áður en ég kom. Þeir sem komu rétt fyrir auglýstan tónleikatíma vissu því ekkert hvað var verið að spila í byrjun. Það varð ekki ljóst fyrr en eftir á.

Á efnisskránni voru tónsmíðar eftir Couperin og Devienne. Flutningurinn var til fyrirmyndar. Matthías er óneitanlega fínn hljóðfæraleikari. Hann hefur prýðilegan tón, vandar sig í hvívetna og spilar af sannri tilfinningu. Sömuleiðis var gaman að hlusta á Elísabetu. Leikur hennar var bæði nákvæmur og músíkalskur. Það var því ekkert við sjálfan tónlistarflutninginn að athuga.

Um sviðsframkomuna gegndi öðru máli. Á klassískum tónleikum þykir ekki til siðs að klappa á milli kafla í einstöku verki. Aðeins þegar verkið er allt búið. Á tónleikunum var hins vegar klappað á eftir hverjum kafla. Það var allt í lagi í sjálfu sér. Hvaðan kemur þessi regla um að það megi ekki?

Fólki fannst greinilega gaman og vildi sýna það með fagnaðarlátum. Þau Matthías og Elísabet hefðu átt að taka almennilega á móti. Brosa fallega, segja "takk", jafnvel hneigja sig. Sýna smá þakklæti. En því var ekki að heilsa. Þau tóku klappinu fálega og glottu bara vandræðalega. Í hvert einasta skipti! Það virkaði yfirlætisfullt og var ljóður á annars ágætri dagskrá.

Niðurstaða: Vandaðir tónleikar sem hefði mátt kynna betur á heimasíðu Salarins, auk þess sem sviðsframkoma hljóðfæraleikaranna hefði getað verið afslappaðri og þægilegri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×