Innlent

Ferðamönnum gæti fækkað um 48 þúsund

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
Hækkun virðisaukaskatts á gistingu bitnar verst á Reykjavík vegna allra litlu gistiheimilanna sem þar eru. Þetta segir Illugi Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ferðamönnum gæti fækkað um 48 þúsund, samkvæmt svörtustu spám Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands.

Hækkun virðisaukaskatts á gistingu hefur vakið afar hörð viðbrögð meðal aðila í ferðaþjónustu en í fjárlagafrumvarpi er gert ráð fyrir að vaskurinn hækki úr 7 - 25,5% en vaskurinn á gistingu lækkaði í neðra skattþrep 2006.

Framkvæmdastjóri Icelandair Hotels sagði þetta: „Rothögg, aðeins eitt orð fyrir það," í kvöldfréttum okkar í ágúst sl.

Að mati Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands gæti þessi hækkun valdið því að gistinóttum fækki um 1,7 - 5,5 prósent.

Svartsýnasta spá stofnunarinnar gerir ráð fyrir fækkun upp á 48 þúsund ferðamenn á ársgrundvelli.

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, sagði í grein í Fréttablaðinu um síðustu helgi að nettóáhrifin af þessari hækkun yrðu neikvæð á endanum fyrir ríkissjóð þá væri betur heima setið en af stað farið.

Stjórnvöld benda hins vegar á að þetta sé nauðsynleg tekjuöflun og vaskur á gistingu sé lægstur hér af hinum Norðurlöndunum. Færsla í efra skattþrep sé eðlilegt skref.

Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, segir áhrifin á Reykjavík sérstaklega neikvæð þar sem þetta bitni ekki einungis á hótelum heldur einnig á öllum smærri fyrirtækjum í ferðaþjónustu í bænum, öllum gistiheimilunum. Skattahækkunin bitni þannig verst á Reykjavík af öllum landshlutum.

„Greinin sjálf verður að taka þetta og það mun gera aðilum í ferðaþjónustu erfiðara að fjárfesta, erfiðara að ráða nýtt fólk og þannig lendir þetta á okkur öllum fyrir rest. Það hefði þurft að gera þetta með öðrum hætti. Það hefði þurft að gera þetta yfir lengri tíma, þannig að menn gætu undirbúið sig. Þetta er eitt af stóru vandamálunum við þessa ríkisstjórn að það er að þeim tekst aldrei að vinna þessa hluti í góðu samstarfi við atvinnulífið," segir Illugi Gunnarsson. thorbjorn@stod2.isAthugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.