Innlent

Hér má sjá hvernig heiðagæs vegnar við Kárahnjúka

Viðamiklar rannsóknir á áhrifum stórframkvæmdanna á Austurlandi á síðasta áratug þykja einstakar í heiminum en hartnær fimmtíu þættir eru til skoðunar.

Þegar framkvæmdirnar hófust við Kárahnjúka og á Reyðarfirði settu Landsvirkjun og Alcoa í gang svokallað sjálfbærniverkefni til að fylgjast með áhrifunum en fjallað var um stöðu þess á fundi í Reykjavík í vikunni.

Umsjónin er í höndum Þekkingarnets Þingeyinga og í viðtali í fréttum Stöðvar 2 segir Guðlaug Gísladóttir verkefnastjóri að þetta sé einstakt á heimsvísu. Ekkert verkefni af þessu tagi af þessari stærðargráðu hafi áður verið sett á laggirnar í heiminum.

Verkefnið er kostað af fyrirtækjunum en andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar, eins og Landvernd, þáðu boð um þátttöku. Björgólfur Thorsteinsson, fyrrverandi formaður Landverndar, segir ástæðuna þá að þeir hafi viljað vera vissir um að, sérstaklega umhverfisþættirnir, væru mældir á réttan hátt.

Guðlaug segir verkefnið hafa gríðarmikið gildi þar sem þarna sé verið að nota vísindalegar aðferðir til að rannsaka áhrif álvers og virkjunar á umhverfi, efnahag og samfélag.

Á vefnum sjálfbaerni.is má fylgjast með 46 mismunandi þáttum; 16 um samfélagið, 24 á sviði umhverfis og 5 efnahagsþáttum. Þar má til dæmis sjá þróun fasteignaverðs á Austurlandi, hvernig heiðagæs vegnar við Hálslón og hver efnahagslegur ábati er við þjóðarframleiðslu.

En er hægt að treysta því að þetta sé hlutlaust mat?

„Við höfum ekki ástæðu til að ætla annað en að það sé hægt að treysta þessum niðurstöðum," svarar Björgólfur Thorsteinsson.

Hvenær verður svo unnt að kveða upp stóra dóm?

„Ég segi eftir 20 ár," svarar Guðlaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×