Innlent

Guðmundur Steingrímsson: Þetta er okkar hjartans mál

Valur Grettisson skrifar
Guðmundur Steingrímsson.
Guðmundur Steingrímsson.
„Ég varpaði þessum hugmyndum fram í lok síðasta árs, um að þeir peningar sem væru bundnir í bönkunum væru að hluta til notaðir til fjárfestinga í skapandi greinum, nýsköpun og rannsóknum sem ættu að auka á hagvöxt," segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar framtíðar, en hann ásamt Heiðu Kristínu Helgadóttur, komu að aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í Iðnó fyrr í dag.

Á vef forsætisráðuneytisins segir að markmið fjárfestingaáætlunarinnar fyrir Ísland (2013-2015) sé að styðja við hagvöxt og fjölbreytni í atvinnulífi. Jafnframt segir að áætlunin sé liður í nýrri sókn eftir efnahagshrunið og er ætlað að styðja við efnahagsbata og hagvöxt.

Áætlunin verður fjármögnuð annarsvegar með sérstöku veiðigjaldi og leigu aflahlutdeilda sem kveðið er á um í ósamþykktu kvótafrumvarpi. Þaðan á alls að koma 17 milljarðar.

22 milljarðar verða svo fjármagnaðir af arði og eignasölu hluta ríkisins í bönkum, samkvæmt framtíðarsýn Bankasýslu ríkisins. Í báðum tilfellum eru settir fyrirvarar um að frumvarpið og áætlunin gangi eftir.

Guðmundur segir að áætlunin ætti að komast til framkvæmda eftir að fjárlögin verða samþykkt næsta haust, en gangi það eftir. Þess má geta að þingkosningar eru svo vorið eftir.

Spurður hversvegna Björt framtíð kemur inn í áætlun ríkisstjórnarinnar, sem þingflokksformaður Framsóknarflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, kallar kosningaplagg í viðtali við RÚV, svarar Guðmundur: „Þetta eru mikilvæg mál og maður er í stjórnmálum til þess að koma að gagni ."

Guðmundur mun koma með beinum hætti að framkvæmd áætlunarinnar í gegnum ráðherranefnd um atvinnumál.

Spurður hvort samstarf ríkisstjórnarinnar og Bjartrar framtíðar séu á fleiri sviðum, svarar Guðmundur því til að hann hafi áður varið ríkisstjórnina falli. „Og þetta er okkar hjartans mál, því hafa líkurnar á að ég greiði með vantrausti ekki aukist," segir Guðmundur.

Spurður hvort fyrirvararnir séu ekki fullmiklir, það er að segja að frumvörp um fiskveiðistjórnun og veiðigjöld verði samþykkt, svarar Guðmundur því að hann líti svo á að það sé helst deilt um veiðileyfagjaldið, „en þar er frekar deilt um útfærslur," segir Guðmundur sem bætir við að hann hafi þó sínar efasemdir um kvótafrumvarpið.

Hægt er að lesa áætlun ríkisstjórnarinnar og Bjartrar framtíðar í heild sinni á vef forsætisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×