Viðskipti innlent

Opinberir stjórnendur geta ekki krafist sömu launa og í einkageiranum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mörður Árnason er þingmaður Samfylkingarinnar.
Mörður Árnason er þingmaður Samfylkingarinnar. mynd/ valli.
„Menn geta ekki gert ráð fyrir því, ef þeir ráða sig í stjórnunarstöðu hjá íslenska ríkinu, að hafa laun sem eru sambærileg við laun í einkageiranum og í útlöndum," segir Mörður Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur stefnt Seðlabanka Íslands vegna launamála. Hann telur að launin sem kjararáð hafi ákvarðað honum séu lægri en launin sem honum var heitið þegar gengið var frá skipun hans í starfið. Þá hefur Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, og bankaráð bankans sagt að bankaráð en ekki kjararáð eigi að ákveða laun bankastjóra Landsbankans.

Mörður segir að sjónarmið sín varðandi launakjör opinberra starfsmanna eigi við um þá báða, en hann vill ekki tjá sig um málshöfðun Más gegn Seðlabankanum. „Það verður að hafa samhengi í samfélaginu og það samhengi verður líka að ná til launamála," segir Már. Aðspurður um hvað sé þá eftirsóknarvert við að vinna í stjórnunarstöðu hjá hinum opinbera segist Mörður ekki geta sagt til um það. „Af hverju sækja svona margir um stjórnunarstöður hjá hinu opinbera? Það er ekkert lát á því," segir Mörður á móti.

Mörður tekur skýrt fram að hann sjái vel að í þessari umræðu sé ákveðinn vandi á ferð og sá vandi verði alltaf fyrir hendi. „En það geta verið ákveðnir kostir vð að vinna hjá opinberum fyrirtækjum. Án þess að tala um Steinþór og Má, þá kemur það fram í lífeyrismálum og oft er atvinnuöryggið meira en í einkageiranum," segir Mörður. Hann ítrekar þó að þessi umræða sé hvorki einföld né auðleysanleg.

Fréttastofa Stöðvar 2 og Vísis hefur reynt að ná tali af Steingrími J. Sigfússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra, vegna málsins og Helga Hjörvar, formann efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis, en ekki haft erindi sem erfiði. Aðstoðamaður Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra vísaði á efnahags- og viðskiptaráðuneytið þegar hún var innt eftir viðbrögðum við fréttum af málshöfun Más.


Tengdar fréttir

Mörður hvetur Steinþór til að segja upp

Mörður Árnason alþingismaður hvetur Steinþór Pálsson bankastjóra Landsbankans til að segja upp störfum. Tilefnið er umsögn bankaráðs Landsbankans við frumvarpi um kjararáð þar sem lagt er til að bankaráðið úrskurði um laun Landsbankastjóra en ekki kjararáð. Þetta er í samræmi við skoðun Steinþórs sem hann lét ljósa í Klinkinu á Vísi á dögunum en þar sagði Steinþór að laun sín væru ekki samkeppnishæf. Laun Steinþórs eru um þriðjungur af launum bankastjóra hinna bankanna, Arion og Íslandsbanka.

Bankaráðið vill fá að ákveða laun Steinþórs

Bankaráð Landsbanka Íslands vill að bankaráðið sjálft, en ekki kjararáð, úrskurði um laun bankastjórans. Þetta kemur fram í umsögn bankaráðsins við frumvarpi fjármálaráðherra um kjararáð, sem Steingrímur J. Sigfússon lagði fram 2. desember síðastliðinn, tæpum mánuði áður en hann sagði skilið við embættið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×