Innlent

Leita sama mannsins á sitthvorum staðnum

BBI skrifar
Björgunarsveit. Mynd úr safni.
Björgunarsveit. Mynd úr safni.
Tvær björgunarsveitir leita nú að sama slasaða ferðamanninum. Þær leita hins vegar á sitthvorum staðnum á landinu og ber mikið í milli. Ástæðan er sú að maðurinn hringdi sjálfur á Neyðarlínuna, óskaði eftir aðstoð og gaf upp gps-staðsetningu.

Hægt er að stilla gps-tæki á mismunandi hátt og þar sem menn eru ekki vissir um hvernig gps-tæki hans er stillt þykir rétt að leita að honum á þeim stöðum tveimur sem koma til greina.

Upphaflega var talið að göngumaðurinn væri slasaður á Styttingi, leiðinni milli Sprengisands og Laugafells. Staðsetningin var óljós enda heyrðist illa í manninum í síma. Björgunarsveitin Dalbjörg lagði af stað upp á hálendið fyrr í dag og áætlaði að vera komin að manninum um sex leytið.

Hægt er að stilla gps-tæki á mismunandi hátt.
Þar fannst maðurinn hins vegar ekki og brátt fóru að renna á leitarmenn tvær grímur. Þá rifjaðist upp fyrir mönnum að hægt er að stilla gps-tæki á mismunandi hátt. Á Íslandi er venjan að hafa tækin stillt á gráður og mínútur. Nú bendir hins vegar allt til þess að gps-tæki ferðalangsins sé stillt á gráður og hundraðshluta. Það þýðir að hann er staddur rétt innan við Akureyri. Því var björgunarsveitin Súlur send til að leita þar fyrir stundu.

Enn hefur maðurinn ekki fundist, en hann er af erlendu bergi brotin. Ekki er heldur vitað hvort hann er alvarlega slasaður eður ei.

Athugasemd klukkan 19:20:

Björgunarsveitin Súlur er nú komin að manninum. Hann reyndist staddur ofan við Kjarnaskóg rétt innan við Akureyri. Hann verður brátt borinn niður í skála í grenndinni. Talið er að hann sé með brákað hné auk þess sem hann var orðinn nokkuð kaldur þegar björgunarsveitirnar komu að honum, enda er norðanvindur á staðnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×