Viðskipti innlent

Hætt við rannsókn á viðskiptum stjórnenda SPRON

Rannsókn á viðskiptum stjórnarmanna í SPRON, sem kærð voru af Vilhjálmi Bjarnasyni lektor við Háskóla Íslands, hefur verið hætt með vísan til laga um meðferð sakamála. Ekkert var talið benda til að stjórn SPRON hafi brotið lög.

Viðskiptablaðið greinir frá þessu í dag. Þar segir að kærandi í málinu var Þórarinn V. Þórarinsson hrl. fyrir hönd Vilhjálms, en hún beindist að allri stjórn SPRON og forstjóra. Í stjórninni voru, á þeim tíma þegar viðskiptin áttu sér stað, Erlendur Hjaltason, Hildur Petersen, Jóhann Ásgeir Baldurs, Ari Bergmann Einarsson og Gunnar Þór Gíslason. Guðmundur Hauksson var forstjóri.

Hinn 7. janúar sl. tilkynnti Valtýr Sigurðsson ríkissaksóknari kærðu og kæranda um þá ákvörðun að rannsókn málsins hefði verið hætt.

Málið má rekja til viðskipta með stofnjárbréf sem áttu sér stað á sumarmánuðum ársins 2007, einkum eftir miðjan júlí, og fram í miðjan ágúst. Þá var lokað fyrir viðskipti með stofnfjárbréf þar sem ákveðið var að breyta SPRON í hlutafélag og skrá það á markað.

Meðal þeirra sem seldu stofnfjárbréf voru þrír stjórnarmenn, Hildur Petersen stjórnarformaður, Gunnar Þór Gíslason og Jóhann Ásgeir Baldurs. Viðskipti Jóhanns Ásgeirs Baldurs voru óveruleg og fyrir margfalt minni fjárhæðir en í tilfelli þeirra fyrrnefndu. Mestu munaði um sölu Gunnars Þórs Gíslasonar, en hann seldi bréf fyrir því sem jafngilti um tveggja prósenta hlutar í sjóðnum, fyrir um tvo milljarða króna, að því er segir í Viðskiptablaðinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×