Skoðun

Ályktanir 33. landsþings NLFÍ í október 2011

Gunnlaugur K. Jónsson skrifar
Náttúrulækningafélag Íslands (NLFÍ) birti heilsíðu auglýsingu í Fréttablaðinu 15. október sl. þar sem fram koma ályktanir landsþings NLFÍ sem haldið var 1. október sl. Þær má finna á heimasíðu samtakanna. (www.nlfi.is) Hópur starfsmanna LbhÍ og HÍ birtir opið bréf til stjórnar NLFÍ í Fréttablaðinu 10. nóvember sl., tengt ályktunum þingsins, þar sem spurningarmerki er sett við það hvort erfðabreyttar lífverur séu hættulegar fólki.

Í umræddri grein er m.a. vísað í ítarlegar rannsóknir þar sem gögn bendi ekki til neinnar sérstakrar hættu sem heilsu fólks stafi af erfðabreyttum lífverum. Gera höfundar þá kröfu að samtökin hræði ekki almenning með staðlausum fullyrðingum. Stjórn NLFÍ beinir því til hlutaðeigandi að það hefur ekki farið framhjá samtökunum, frekar en öðrum þeim sem fylgjast með þessum málum, að því fer víðsfjarri að sátt ríki um þessi mál innan „vísindasamfélagsins“. Bæði hér á landi og erlendis.

Allt frá árinu 2003 hefur landsþing NLFÍ lagst gegn því að heimiluð verði í tilraunaskyni útiræktun erfðabreyttra plantna hér á landi og varað við þeirri hættu sem slík ræktun hefur í för með sér fyrir ímynd og hreinleika Íslands og opinber markmið um sjálfbæra þróun. NLFÍ telur sér skylt að beita sér fyrir því að náttúra og lífríki Íslands fái í öllu að njóta velvildar vafans.

NLFÍ hefur á undanförnum áratugum verið langt á undan sinni samtíð m.t.t. ýmissa mála sem haldið hefur verið á lofti í þeim tilgangi að stuðla að náttúruvernd, bættri heilsu og velferð landsmanna. Oftar en ekki í mikilli andstöðu við ríkjandi skoðanir „vísindasamfélagsins“. Nefna má áherslur NLFÍ á vægi heilbrigðra lifnaðarhátta á heilsufar, t.a.m. tengt mataræði, hreyfingu og þeirri staðreynd að einstaklingurinn verði að bera ábyrgð á eigin heilsu og velferð.

Á sínum tíma stóðu forsvarsmenn NLFÍ í miklum deilum við þáverandi stjórn Læknafélags Íslands. Deilan spratt af því að Jónas Kristjánsson læknir, þáverandi forseti NLFÍ, fordæmdi að tóbaksauglýsingar væru birtar í Læknablaðinu. Stuðningsmenn þessara auglýsinga, ekki síst menn úr „vísindasamfélaginu“, fóru hamförum og voru duglegir að vísa til ítarlegra rannsókna sem sýndu fram á skaðleysi tóbaks. NLFÍ var lýst sem óábyrgum öfgasamtökum sem héldi uppi hræðsluáróðri gagnvart almenningi með því að setja sig upp á móti tóbaksnotkun.

NLFÍ furðar sig á því hvers vegna yfirvöld sáu ástæðu til þess að fresta gildistöku matvælaþáttar reglugerðar nr. 1038/2010 („reglugerð um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs“), sem undirrituð var af ráðherra 14. desember 2010. Almenningur hefur mismunandi skoðanir á erfðabreyttum lífverum og erfðabreyttum matvælum. Hins vegar er með öllu óskiljanlegt að yfirvöld sjái ástæðu til þess að koma í veg fyrir að kaupandi matvæla hafi það val að ákveða sjálfur hvað hann leggur sér til munns eða gefur börnum sínum. Full ástæða er til þess að velta fyrir sér í þágu hverra ákvarðanir sem þessar eru teknar.

Í byrjun fimmta áratugs síðustu aldar var fullyrt að skordýraeitrið DDT væri nánast guðsgjöf sem myndi umbylta allri matvælaframleiðslu heimsins, mannkyni til heilla. Í dag efast enginn um þann skaða sem DDT hefur valdið vistkerfi jarðarinnar. Nú ber svo við að erfðatækninni er m.a. hampað sem bjargvætti m.t.t. matvælaframleiðslu jarðarinnar með svipuðum hætti og gert var á sínum tíma með DDT. Náttúrulækningafélag Íslands mun hér eftir sem hingað til halda sínu striki varðandi upplýsingamiðlun og fræðslu til almennings um hvaðeina sem samtökin álíta að varði náttúruvernd og heilbrigt líferni. NLFÍ krefst þess að í öllum málum þessu tengt fái almenningur og náttúra Íslands að njóta velvildar vafans. Berum ábyrgð á eigin heilsu!




Skoðun

Sjá meira


×