Innlent

Leita uppi óbólusett börn vegna mislinga

Sóttvarnalæknir hvetur foreldra til að bólusetja börn sín. MMR-bóluefnið Priorix er notað hér á landi og er talið öruggt og áhrifaríkt.nordicphotos/getty images
Sóttvarnalæknir hvetur foreldra til að bólusetja börn sín. MMR-bóluefnið Priorix er notað hér á landi og er talið öruggt og áhrifaríkt.nordicphotos/getty images
Haraldur Briem
Haraldur Briem sóttvarnalæknir hvetur foreldra til að bólusetja börn sín við mislingum. Embættið leitar nú óbólusettra barna á grunni fullkomins upplýsingabanka. Hann segir ljóst að hlutfall bólusetninga megi ekki minnka að ráði hér á landi ef ekki eigi að skapast hætta á að mislingar blossi upp hér. Á þremur árum hefur mislingafaraldur náð til allra Evrópulanda nema Íslands, Ungverjalands og Kýpur.

Haraldur viðurkennir að það valdi honum áhyggjum að bólusetningar gegn mislingum séu á mörkum þess sem teljist viðunandi hér á landi. „Svokallað hjarðónæmi, sem við erum að sækjast eftir og kemur í veg fyrir að við fáum faraldur hérna, næst þegar ekki færri en 90 prósent mannfjöldans eða meira eru bólusett. Ef þetta lækkar hjá okkur úr því sem það er núna erum við ekki í góðum málum."

Haraldur segir að ýmislegt geti legið því að baki að börn séu ekki bólusett, svo sem misskilningur og aðgæsluleysi. Þá sé nokkur hópur fólks alfarið mótfallinn bólusetningum. „Það sem við erum að gera núna er að finna óbólusett börn og leita eftir upplýsingum um hverju það sætir. Við ætlum að elta þetta uppi og finna óbólusett börn. Við erum að vinna að því í þessum töluðu orðum," segir Haraldur, en á Íslandi er talið að 90 til 95 prósent barna hafi fengið fullnægjandi bólusetningu gegn mislingum, við átján mánaða og tólf ára aldur.

Mislingafaraldurinn í Evrópu hófst árið 2009 en hefur náð nýjum hæðum undanfarna mánuði. „Ég hef sagt að það sé lýðheilsuhneyksli að þessi staða sé komin upp. Sjúkdómurinn grasserar í þróuðum ríkjum eins og Frakklandi, Þýskalandi og Austurríki, sem mér finnst dapurlegt," segir Haraldur.

Til þessa hafa rúmlega 30 þúsund einstaklingar greinst með mislinga á árinu 2011. Um 82 prósent þeirra voru óbólusett, flest börn yngri en tíu ára. Flest tilfelli hafa verið tilkynnt í Frakklandi. „Hátt á annan tug barna hefur dáið síðan faraldurinn hófst og þá eru ónefnd börnin sem hafa fengið alvarlega heilabólgu og enn fleiri alvarlega lungnabólgu. Þetta eru hinir alvarlegu fylgikvillar mislinganna." - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×