Erlent

Lýðræðishetja syrgð í Tékklandi

Frelsishetja kvödd Fjöldi manns mætti til að kveðja fyrrverandi forseta og andófsmann.Fréttablaðið/AP
Frelsishetja kvödd Fjöldi manns mætti til að kveðja fyrrverandi forseta og andófsmann.Fréttablaðið/AP
Útför Vaclavs Havel var gerð í Prag í gær að viðstöddum fjölda erlendra þjóðhöfðingja.

Þar á meðal mátti greina David Cameron frá Bretlandi, Nicolas Sarkozy frá Frakklandi og Angelu Merkel frá Þýskalandi, ásamt Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og eiginmann hennar, Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

„Hann var mikill baráttumaður fyrir frelsi þjóðanna og fyrir lýðræði,“ sagði Lech Walesa, fyrrverandi forseti Póllands, sem eins og Havel varð forseti lands síns eftir að sigur hafði unnist.

Havel sat lengi í fangelsi á tímum kommúnistastjórnarinnar og varð þekktasti andófsmaður Tékklands, ásamt því að vera þekktur leikritahöfundur.

Hann varð svo forseti Tékklands árið 1989, þegar flauelsbyltingin svonefnda hafði steypt stjórninni af stóli. Forsetaembættinu gegndi hann til ársins 2003.

Havel lést á sunnudaginn var, 75 ára að aldri.

- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×