Skoðun

Leyfið bönkunum að koma til mín

Ólafur Hauksson skrifar

Enn einu sinni hefur okkur atvinnurekendum hlotnast sá heiður að fá að hlaupa undir bagga með bönkunum. Hjá Íslandsbanka var 42 sagt upp störfum á einu bretti. Reikna má með að stór hluti þeirra þurfi á atvinnuleysisbótum að halda. Atvinnurekendur standa undir atvinnuleysisbótum með tryggingagjaldi á laun. Því má með réttu segja að Íslandsbanki sé að velta byrðunum yfir á þá sem þó reyna að hafa fólk í vinnu.

Samtals hafa fjármálastofnanir losað sig við 2.000 starfsmenn frá hruni til að hámarka hagnað sinn. Íslandsbanki hagnaðist um 8 milljarða fyrstu sex mánuði ársins, Arion banki um 13,6 milljarða fyrstu níu mánuðina og Landsbankinn um 27 milljarða fyrstu níu mánuðina.

Eiginfjárhlutfall bankanna er gríðarlega sterkt og lausafjárstaðan svo góð að seðlarnir vella út um eyrun á gjaldkerunum. Arður hefur ekki verið greiddur út frá stofnun bankanna 2008 og hleðst bara upp.

Með öðrum orðum, bankarnir standa betur en flest ef ekki öll fyrirtæki í landinu. Samt finnst þeim Höskuldi Ólafssyni, Birnu Einarsdóttur og Steinþóri Pálssyni ekkert sjálfsagðara en reyna að kreista út aðeins meiri hagnað með því að vísa starfsfólki sínu á framfæri atvinnuleysistrygginga – á kostnað viðskiptavina sinna.

Vissulega mátti fækka eitthvað í bönkunum eftir hrun. En hvers vegna þarf að ganga svona langt? Hvers vegna finnst bönkunum sjálfsagt að senda okkur hinum reikninginn? Mundi heimurinn farast ef bankarnir högnuðust aðeins minna?




Skoðun

Sjá meira


×