Handbolti

Þetta er nú það leiðinlega við þetta starf

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari kynnti HM-hópinn sinn á blaðamannafundi í gær.
Ágúst Þór Jóhannsson landsliðsþjálfari kynnti HM-hópinn sinn á blaðamannafundi í gær. Mynd/Anton
Stelpurnar okkar eru nú orðnar sextán talsins eftir að landsliðsþjálfarinn Ágúst Þór Jóhannsson gaf það út í gær hvaða fjórir leikmenn verða að sætta sig við að detta út úr HM-hópnum á lokasprettinum en fram undan er fyrsta heimsmeistaramót kvennalandsins frá upphafi.

Ágúst ákvað að skilja eftir HK-ingana Ólöfu Kolbrúnu Ragnarsdóttur og Brynju Magnúsdóttir sem og þær Hildi Þorgeirsdóttur og Elísabetu Gunnarsdóttur. Áður hafði Sólveig Lára Kjærnested dregið sig út úr hópnum og einnig fyrirliðinn Rakel Dögg Bragadóttir sem meiddist illa á hné.

Allt valið var erfitt
Mynd/Anton
„Svona val er alltaf gríðarlega erfitt og var kannski extra erfitt núna. Við gengum frá því seint í gærkvöldi," sagði Ágúst á blaðamannafundi í gær en hann valdi hópinn með góðri aðstoð frá aðstoðarþjálfara sínum, Gústaf Adolf Björnssyni. Liðið leggur af stað til Brasilíu á þriðjudaginn og mun stoppa í London og spila einn æfingaleik við breska landsliðið.

„Þetta er búið að liggja þungt á mér síðustu daga. Maður þarf að vera vel undirbúinn fyrir allt. Við Gústaf erum búnir að liggja yfir þessu og erum sannfærðir um að þetta sé sá hópur sem passar best í verkefnið," segir Ágúst og bætir við:

„Þetta er nú það leiðinlega við þetta starf að þurfa að taka þessi símtöl og skera niður hópinn," segir Ágúst og hann viðurkennir að það hafi haft áhrif á valið að missa landsliðsfyrirliðann Rakel Dögg Bragadóttur rétt fyrir mót.

„Það breytti áherslunum í valinu að missa Rakel en það er bara partur af þessu að lenda í svona áföllum. Rakel er auðvitað frábær handboltamaður og ég væri að ljúga því ef ég segði að ég væri ekki svekktur yfir að hafa misst hana út og kannski ekki síst fyrir hennar hönd. Það er þannig í boltanum að það kemur maður í manns stað og við erum búnir að vera að prófa leikmenn og hrókera til í stöðum og annað," segir Ágúst.

„Æfingarnar hafa verið góðar og það er mikill hugur í liðinu og mikil einbeiting. Það eru enn þá tíu dagar í fyrsta leik í heimsmeistarakeppninni og við höfum því góðan tíma og þrjá leiki fram að því. Það er um að gera að nýta tímann áfram vel."

Valið á milli markvarðanna
Mynd/Anton
Ágúst nefnir sérstaklega valið á milli markvarðanna Sunnevu Einarsdóttur og Ólafar Kolbrúnar Ragnarsdóttur en það vekur vissulega athygli að báðir markverðir liðsins spila með Val.

„Markmannsstaðan var erfið og ég viðurkenni það alveg. Mér fannst Sunneva standa sig gríðarlega vel á þessum sex æfingum fram að því að við völdum hópinn. Sunneva er búin að standa sig vel og ég var mjög ánægður með hennar nálgun á æfingunum hvað varðar keppnisskap og hugarfar. Kolla stóð sig líka mjög vel og þær eru jafnar í getu. Það var gríðarlega erfitt val," sagði Ágúst.

Íslenska landsliðið tók þátt í EM fyrir ári sem var fyrsta stórmót liðsins en náði þá ekki að vinna leik.

„Það var góður skóli fyrir stelpurnar að fara á EM í fyrra, mikil og góð reynsla. Við Íslendingar gerum alltaf gríðarlega miklar kröfur en við verðum samt að horfa raunsætt á þetta. Riðillinn er mjög sterkur og mér fyndist það stórkostlegur árangur ef liðið kæmist upp úr riðlunum," segir Ágúst.

Tveir leikir við Tékka um helginaÍslenska landsliðið spilar tvo æfingaleiki við Tékka í Vodafonehöllinni á morgun og á laugardag og Ágúst ætlar að bíða með formlega markmiðssetningu þar til eftir þá leiki.

„Við komum til með að gefa út okkar markmið og það verður ekkert feimnismál. Við ætlum að setjast niður á sunnudaginn eftir að við erum búin að spila þessa Tékkaleiki og setja okkur þá markmið fyrir riðlakeppnina. Ég sé betur stöðuna á liðinu eftir Tékkaleikina. Við erum að fara inn í erfiða leiki á móti sterku liði en það er góður undirbúningur fyrir okkur og prófsteinn á liðið og hvar við stöndum," segir Ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×