Skoðun

Samkeppni um bestu nemendurna?

Björn M. Sigurjónsson skrifar
Á dögunum skrifaði Þorbjörg H. Vigfúsdóttir grein í Fréttablaðið þar sem hún reifaði skoðun á þeirri tilhögun að framhaldsskólar tækju fyrst og fremst inn nemendur úr þeim hverfum þar sem þeir starfa. Meginforsendan í grein Þorbjargar er að geti framhaldsskólar ekki keppt um bestu nemendurna hafi það slæm áhrif á metnað og hvöt nemenda til að standa sig vel í námi.

Það gefur tilefni til þess að velta upp þeim sjónarmiðum sem varða samkeppni milli skóla, um bestu nemendur, um árangur nemendanna og hvernig æskilegt væri að meta árangur skóla. Það er staðreynd að nemendur sem hafa metnað fyrir góðum einkunnum og frammistöðu í skóla reyna að standast þau lágmörk sem sett eru fyrir inngöngu í tiltekna skóla. Hluti nemenda stenst þessi lágmörk og fáeinir bóknámsskólar velja sér nemendur úr þessum hópi.

Hins vegar er óljóst hvort stjórnvöld hafa einhvern tíma sett framhaldsskólunum fyrir það verkefni að velja sér nemendur með þessum hætti. Líklegra er að þetta sé sjálfsprottið fyrirbæri, að fáeinir framhaldsskólar hafi einfaldlega fengið það upp í hendurnar að nemendur sækist eftir skólavist og skólastjórnendur hafi getað valið úr nemendum. En í því felst engin samkeppni milli skóla um nemendur.

Ef ætlunin er að láta framhaldsskóla keppa innbyrðis þarf að skilgreina í hverju sú keppni ætti að vera fólgin. Hvaða árangur ættu framhaldsskólar að sýna og hvernig ætti að mæla þann árangur? Grundvöllur þess árangurs ætti að vera það hlutverk sem framhaldsskólum er ætlað í samfélaginu. Hlutverk framhaldsskólans er ekki nægilegt að skilgreina sem almenn yfirmarkmið í lögum heldur þarf að skilgreina þau sem áþreifanleg, sértæk og raunhæf markmið.

Færni til þátttöku í samfélagi, atvinnulífi og lýðræðislegri umræðu virðist vera augljóst markmið en einnig lausnamiðun, sköpun, tækniþekking, félagsleg færni og ábyrgð í samskiptum. Þá má spyrja hvort kennsluaðferðir, námsefnisgerð, notkun rýmis og uppstokkun í félagslegu umhverfi skólanna séu ekki þættir sem þarf að endurskoða innan framhaldsskólanna. Nemendur hafa sjálfir uppgötvað að upptugga og endurtekning námsefnis í skólastofum er ekki sú færni sem nýtist þeim þegar út í atvinnulífið er komið. Þetta er ekki síst brýnt þegar tölur um brottfall nemenda eru í hæstu hæðum hérlendis og það er orðið alvarlegt félagslegt vandamál.

Í þessu sambandi er það sérstakt umhugsunarefni að innan grunnskólans hafa átt sér stað heilmiklar breytingar til hins betra, sem stafa einmitt af þeirri áskorun að hafa fjölbreyttan nemendahóp innan hvers skóla. Þar er það ekki valkostur að skilja hluta nemendahópsins eftir á flæðiskeri og róa burt með afganginn. Í sömu viku og grein Þorbjargar birtist voru menntaverðlaun veitt Sjálandsskóla. Verðlaunin voru veitt fyrir framsæknar kennsluaðferðir, hugvitsamlega nýtingu húsnæðis, frumlega kennslu eins og útikennslu, áherslu á skapandi greinar og umhyggju fyrir nemendum. Þetta tekst í grunnskólum án þess að þeim sé att sérstaklega saman í samkeppni um nemendur. Framhaldsskólum er engin vorkunn að takast á við sams konar áskorun.




Skoðun

Sjá meira


×