Innlent

Fréttaskýring: Um 20% lands njóta verndar

Farið var yfir umhverfismál Evrópusambandsins á ráðstefnu nýverið. Laga þarf íslenskt lagaumhverfi að því evrópska, hvort sem af aðild verður eða ekki. Michael O'Briain situr fyrir miðri mynd.
Farið var yfir umhverfismál Evrópusambandsins á ráðstefnu nýverið. Laga þarf íslenskt lagaumhverfi að því evrópska, hvort sem af aðild verður eða ekki. Michael O'Briain situr fyrir miðri mynd. fréttablaðið/valli
Hvernig standa umhverfismál hér á landi gagnvart Evrópulögum?

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir að framþróun í lagaumhverfi náttúruverndar hafi verið of hæg hér á landi. Laga þurfi umhverfið að því sem tíðkist í Evrópusambandinu (ESB), óháð því hvort Ísland gerist aðili að því eður ei. Hvítbók um náttúruvernd sé stórt skref fram á við í þeim efnum.

Svandís talaði á ráðstefnu um ESB og umhverfismál sem haldin var fyrir skemmstu. Svandís minnti á að á meðal mála sem ætti eftir að ræða í aðildarviðræðum við ESB væru hvalveiðar.

Aðalheiður Jóhannesdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, fór yfir muninn á EES-samningnum og lögum ESB varðandi umhverfismál. Þar bar hæst að náttúruvernd væri ekki að finna í EES-samningnum. Hún sagði lagalega séð hafa gengið vel að innleiða umhverfisþætti EES-samningsins, en framkvæmd laganna væri ábótavant.

Í máli Michaels O'Briain, eins yfirmanna stjórnarskrifstofu umhverfismála hjá ESB, kom fram að um 18 prósent af landsvæðum aðildarríkja Evrópusambandsins nytu verndar samkvæmt tilskipun varðandi vernd vistgerða. Alls njóta um 26 þúsund svæði í álfunni verndar. Það þýðir ekki að lokað sé á allar framkvæmdir á svæðunum en þær verða hins vegar að falla undir skilgreiningu sjálfbærrar þróunar.

Unnið er að innleiðingu tilskipunarinnar um vernd vistgerða og annarrar um vernd fugla. Þær falla undir Natura 2000, sem er stefna Evrópusambandsins í umhverfismálum. Tilskipanirnar verða aðildarríki að hafa innleitt í landslög þegar þau ganga inn í sambandið.

Aðildarríki fá ekki undanþágu frá grunnstoðum tilskipananna, en í einhverjum tilfellum hafa undanþágur á öðrum þáttum verið veittar. O'Briain sagði öll lönd sem farið hefðu í gegnum vinnu tengda umhverfismálum ESB hafa bætt stöðu málaflokksins hjá sér og vísaði sérstaklega til reynslu Svía frá 1995.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, fór yfir stöðu frjálsra félagsamtaka gagnvart Evrópusambandinu. Hann sagði þau mikilvægan þrýstihóp sem gæti haft áhrif á stefnumótun bandalagsins. kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×