Innlent

Fréttaskýring: Endurreisn miðaldardómkirkju í Skálholti

Svavar Hávarðsson skrifar
Tölvugerð mynd sem sýnir kirkjuna með koparþaki að mestu og tiltölulega stórum gluggum með steindu gleri. Ákvarðanir um endanlegt útlit hafa ekki verið teknar. Hinar myndirnar sýna ýmsar útgáfur af hugsanlegu útliti kirkjunnar. Dómkirkjurnar íslensku voru einstæðar í evrópskri byggingarsögu og voru um tíma stærstu timburhús á Norðurlöndum.
Tölvugerð mynd sem sýnir kirkjuna með koparþaki að mestu og tiltölulega stórum gluggum með steindu gleri. Ákvarðanir um endanlegt útlit hafa ekki verið teknar. Hinar myndirnar sýna ýmsar útgáfur af hugsanlegu útliti kirkjunnar. Dómkirkjurnar íslensku voru einstæðar í evrópskri byggingarsögu og voru um tíma stærstu timburhús á Norðurlöndum. Myndir/VSÓ Ráðgjöf
Hugmyndir um endurreisn miðaldadómkirkju í Skálholti voru kynntar á kirkjuþingi á þriðjudag. Ef af verður mun rísa vitnisburður um eitt mesta stórvirki íslenskrar menningarsögu sem var svo gott sem gleymt.

Verkefnið byggir á því að aðilar í ferðaþjónustu og þjóðkirkjan taki höndum saman um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu með endurreisn kirkjunnar og reki hana sem sjálfstætt menningar- og sýningarhús.

Skálholt hefur fyrir mikið aðdráttarafl í krafti sögunnar og telja aðstandendur verkefnisins að með endurreistri miðaldadómkirkju aukist gildi Skálholts sem viðkomustaðar að mun, bæði fyrir Íslendinga og erlenda ferðamenn. Á það er bent að Skálholt er í hjarta helsta ferðamannasvæðis landsbyggðarinnar, skammt frá höfuðborgarsvæðinu.

Hin mikla fjölgun ferðamanna á Íslandi á undanförnum árum gerir endurbygginguna í Skálholti og rekstur hússins í framhaldinu að raunhæfum möguleika, að mati aðstandenda. Með meira en 600 þúsund erlendum ferðamönnum er orðinn til markaður fyrir hugmyndina sem ekki var fyrir hendi áður og unnt að byggja húsið og reka það á arðbæran hátt.

Höfuðstaður Íslands
Fyrstu hugmyndir eru að kirkjan verði reist um 100 metra beint vestur af núverandi kirkju. Þar stendur hún tíu metrum lægra í landinu en núverandi kirkja. Aðstandendur telja að kirkjan njóti sín vel á þessum stað án þess að skyggja á ásýnd Skálholtsstaðar og tign núverandi kirkju.
Skálholt var um sjö aldir höfuðstaður Íslands og á miðöldum voru þar og á Hólum reistar stórar dómkirkjur úr timbri. Þessar miklu og einstæðu kirkjur stóðu að meðaltali í um hundrað ár, en voru þá endurbyggðar, meðal annars vegna fúa, foks eða bruna.

Við fornleifarannsóknir Kristjáns Eldjárns og fleiri í Skálholti 1954-1958 fannst grunnur hinna stærstu þessara kirkna þar (Ögmundarkirkju 1527-1567 / Gíslakirkju 1567-1673) og í framhaldinu vann Hörður Ágústsson byggingarsögufræðingur frekari rannsóknir á gerð þeirra og útliti.

Teikningar að þeim hafa legið fyrir lengi og í Þjóðminjasafni er stórt líkan að miðaldadómkirkjunni sem um ræðir. Hún var tæplega 50 metra löng, 12 metra breið og 14 metra há á efst í mæni.

Tekið skal fram að teikningarnar sem birtast á þessari síðu eru ekki lokagerð kirkju, unnin af arkitektum. Hér er aðeins um skissur að ræða byggðar á þeim rannsóknum sem unnar hafa verið af Kristjáni, Herði og fleirum. Nái verkefnið fram að ganga er eftir að vinna mikla vinnu hvað varðar ásýnd hússins og umhverfi hennar.

Fyrstu hugmyndir
Þessi mynd sýnir innviði miðaldadómkirkjunnar en hér eru engar skreytingar sýndar. Hugmyndin er að handverksfólk verði við vinnu fyrir opnu húsi við að skreyta kirkjuna að innan. Það yrði hluti af aðdráttarafli hússins í fyrstu.
Fyrirhuguð miðaldakirkja er um 600 fermetrar að grunnfleti og á þessu stigi er gert ráð fyrir að kjallari verði undir helmingi hússins.

Framkvæmdin er blanda af hefðbundinni mannvirkjagerð hvað varðar undirstöður, kjallara, bílastæði og tæknikerfi, en um leið endursmíði fornrar timburkirkju. Sá verkþáttur lýtur öðrum lögmálum varðandi efnisöflun og smíði. Í þeim efnum hefur verið leitað fanga hjá norskum sérfræðingum í smíði og viðhaldi fornra stafkirkna og meðal annars tekið mið af þeirra reynslutölum varðandi kostnað.

Áætlaður stofnkostnaður er um 530 milljónir króna miðað við verðlag í september 2011.



Verkefnið í hnotskurn(Heimild: Greinargerð október 2011)

Unnið er að frekari gagnaöflun og áætlanagerð vegna hugmyndarinnar. En miðað við stöðu verkefnisins nú er óhætt að taka fram eftirfarandi:

  • Endurreist miðaldadómkirkja styrkir Skálholtsstað á margan hátt og opnar möguleika til jákvæðrar þróunar á staðnum til framtíðar.
  • Henni er hægt að koma fyrir í Skálholti svo af henni verði staðarprýði.
  • Fræðilegur grunnur verkefnisins er traustur og byggingarframkvæmdin er ekki háð fyrirsjáanlegum erfiðleikum.
  • Gestafjöldi mun standa undir byggingunni og góðum rekstri.
  • Vegna aðstæðna í samfélaginu – fjármálaheimi og ferðaþjónustu – er nú einstakt lag til þess að ráðast í verkið.
  • Endurreist miðaldadómkirkja varpar nýju ljósi á sögu Íslands. Bygging miðaldadómkirknanna á Hólum og í Skálholti er einstakt menningarlegt afrek og undrunarefni – en um leið eitt af best varðveittu leyndarmálum Íslandssögunnar.
  • Hún skapar nýja vídd í ferðamannastaðinn Ísland. Þessi óvenjulega og merkilega bygging mun draga að sér ferðamenn að sumri sem vetri og ekki einungis þá sem komnir eru til landsins – orðstír hennar mun ná langt út fyrir landsteinana.


svavar@frettabladid.is


Tengdar fréttir

Vilja reisa dómkirkju í Skálholti

Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, kynnti á kirkjuþingi í gær hugmyndir um endurreisn miðaldadómkirkju í Skálholti. Hugmyndirnar byggja á því að aðilar í ferðaþjónustu og þjóðkirkjan taki höndum saman um uppbyggingu menningartengdrar ferðaþjónustu með endurreisn kirkjunnar, og reki hana sem sjálfstætt menningar- og sýningarhús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×