Innlent

ESB-aðild þýðir meiri landbúnaðarstuðning

Íslenskir kúabændur njóta beinna styrkja frá ríkinu. Stuðningur við mjólkurframleiðslu er hverfandi innan Evrópusambandsins.fréttablaðið/stefán
Íslenskir kúabændur njóta beinna styrkja frá ríkinu. Stuðningur við mjólkurframleiðslu er hverfandi innan Evrópusambandsins.fréttablaðið/stefán
Auka þarf stuðning við íslenskan landbúnaðar um fimm milljarða króna verði Ísland aðili að Evrópusambandinu og innflutningsvernd afnumin. Ella versnar afkoma bænda. Stuðningurinn nemur í dag níu milljörðum. Þetta kemur fram í skýrslu sem unnin var fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

Skýrsluhöfundar, Daði Már Kristófersson, dósent í hagfræði við HÍ, og Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtaka Íslands, setja þann fyrirvara við útreikninga sína að gengisþróun ráði miklu um útkomuna.

Stuðningsgreiðslur til bænda í Evrópusambandinu eru árlegar eingreiðslur. Framleiðsluákvarðanir hvers bónda hafa ekki áhrif á hlut hans í framlögum hins opinbera. Markaðsskilyrði eiga því einungis að ráða þeim ákvörðunum.

Að mati OECD er stuðningur við íslenskan landbúnað með því mesta sem gerist í heiminum. Hér skiptist stuðningurinn að stærstum hluta í tvennt; markaðsstuðning í formi tollaverndar og beinar greiðslur til bænda. Samkvæmt tölum OECD eru um 48 prósent tekna bænda í formi stuðnings.

Afnám tollaverndar eykur, að mati skýrsluhöfunda, svigrúm smásölunnar til að afla sér aðfanga annars staðar og bæta stöðu sína á kostnað bænda. Þetta muni að öllum líkindum leiða til þess að smásalan fái stærri hluta af verðmyndun búvara.

Skýrsluhöfundar telja að innganga í Evrópusambandið mundi ekki hafa mikil áhrif á sauðfjárbændur, ekki yrði þörf á verðlækkun dilkakjöts þrátt fyrir afnám tollaverndar.

„Gögn OECD benda til þess að verð lækki mikið á kjúklingum, eggjum, mjólk og mjólkurvörum, svínakjöti og blómum ef tollar falla niður á innflutningi frá Evrópusambandslöndum. Langmest yrði verðlækkunin á kjúklingum, rúm 50%, en 44% á eggjum og tæplega 25% á mjólkurvörum. Svínakjötsverð myndi lækka um 41% ef marka má þessa útreikninga,“ segir í skýrslunni.

Matvöruverð úr búð er að jafnaði um 30 prósentum lægra í Evrópusambandinu en á Íslandi. Það er um einu prósenti lægra í Danmörku en hér, 14 prósentum í Finnlandi og 26 prósentum í Svíþjóð.

Skýrsluhöfundar meta reynslu Finna af inngöngu í ESB og komast að því að verð til bænda þar í landi hafi lækkað um 40 til 50 prósent strax við inngönguna.

kolbeinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×