Viðskipti innlent

Segir pláss vera fyrir alla nýju veitingastaðina

Hafliði Halldórsson
Hafliði Halldórsson
Lokun tveggja rótgróinna veitingastaða í miðborg Reykjavíkur, La Primavera og Domo, benda ekki til þess að veitingastöðum hafi fjölgað um of. Þetta segir Hafliði Halldórsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara.

Fréttablaðið sagði frá því í apríl að fínni veitingastöðum í Reykjavík hefði fjölgað nokkuð með opnunum Sjávargrillsins, Grillmarkaðarins og svo veitingastaðanna tveggja í Hörpu, Kolabrautarinnar og Munnhörpunnar. Með tilkomu þeirra fjölgaði sætum í miðborginni um 400.

Nýverið bárust fregnir af því að La Primavera í Austurstræti hefði verið lokað eftir 18 ára rekstur. Þá var Domo í Þingholtsstræti lokað í ágúst en verður þó hugsanlega opnaður á ný í breyttri mynd.

„Ég held að þetta séu bara eðlilegar breytingar. Þau hjá Primavera vildu einbeita sér að nýja staðnum sínum, Kolabrautinni, og ég veit ekki hvort Domo er búið að loka fyrir fullt og allt. Almennt hafa þessir nýju staðir gengið vel og eins flestir hinir gömlu. Það virðist því hafa verið rúm fyrir nýja staði. Það má kannski segja sem svo að þetta sé eðlilegt á meðan ferðamönnum hér fjölgar," segir Hafliði.- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×