Skoðun

Ný stjórnarskrá – ný grundvallarlög

Tryggvi Gíslason skrifar
Stjórnlagaráð Alþingis lagði í fyrra mánuði fram frumvarp til nýrra stjórnskipunarlaga sem hlýtur að vekja athygli allra sem áhuga hafa á þróun lýðræðis og mannréttindum. Stjórnlagaráð Alþingis vann á stuttum tíma gott starf og náði samstöðu um erfið ágreiningsmál.

Skiptar skoðanir eru um frumvarpið. Það er eðlilegt í lýðræðislandi þar sem ekki er amast við ólíkum skoðunum og ekki krafist pólitísks rétttrúnaðar. Vonandi kemst Alþingi að farsælli niðurstöðu á grundvelli frumvarpsins sem byggt er á gildandi stjórnarskrá og tekur mið af afstöðu þjóðfundar sem þúsund manns af öllu landinu og á öllum aldri sátu í lok síðasta árs, enda benda líkur til að meirihluti alþingismanna sé hlynntur grundvallaratriðum frumvarpsins.

Hafa ber í huga að Alþingi Íslendinga þiggur vald sitt frá þjóðinni, enda er slíkt tekið fram í stjórnarskrám margra lýðræðisríkja og í frumvarpi stjórnlagaráðs Alþingis segir: „Alþingi fer með löggjafarvaldið í umboði þjóðarinnar“.

Öll stórmál ber í framtíðinni að leggja í dóm þjóðarinnar eins og „hið nýja lýðræði“ gerir ráð fyrir. Þetta er grundvöllur lýðræðis nýrrar aldar og það er m.a. þetta sem stefnt er að með nýrri stjórnarskrá: að efla lýðræði í landinu, auðvelda aðkomu almennings að stjórn landsins og koma í veg fyrir óheft flokksræði sem ríkt hefur á Íslandi um áratuga skeið.

Hins vegar er æskilegt að víðtæk samstaða náist um nýja stjórnarskrá – ný grundvallarlög lýðveldisins Íslands – með málefnalegri umræðu þar sem skipst er á skoðunum um mikilsverðasta mál íslenskrar stjórnskipunar.




Skoðun

Sjá meira


×