Viðskipti innlent

Tómataræktun gæti tvöfaldast á næsta ári

Gróðurhús landsins þekja samtals um 20 hektara, sem er einmitt sú stærð sem á að vera á gróðurhúsi Geogreenhouse þegar lokaáfanga er náð.mynd/heiða
Gróðurhús landsins þekja samtals um 20 hektara, sem er einmitt sú stærð sem á að vera á gróðurhúsi Geogreenhouse þegar lokaáfanga er náð.mynd/heiða
Ef áform Geogreenhouse um að reisa 3,3 hektara gróðurhús á næsta ári verða að veruleika þýðir það að tómataræktun á Íslandi mun tvöfaldast, að sögn Bjarna Jónssonar, framkvæmdastjóra Sambands garðyrkjubænda. Öll tómataræktun í landinu fer nú fram á samtals fjórum hekturum.

Fyrirtækið áformar að reisa í framtíðinni tuttugu hektara gróðurhús og segir Bjarni það vera álíka og allt það svæði sem notað er til grænmetisræktunar á landinu í dag.

Hann segir það ánægjuefni ef vel takist til við útflutning tómata en að enn verði að svara mikilvægum spurningum. „Ég veit til þess að í Hollandi, til dæmis, geta menn ræktað tómata með mun lægri kostnaði og eru nær markaðssvæðinu en þar hafa þessi fyrirtæki lent í verulegum vandræðum, reyndar eru bankarnir að yfirtaka mörg þeirra. Hvað segir okkur að ræktendum hér á landi takist betur til?“ spyr Bjarni. „Eins þarf að svara þeirri spurningu hvað eigi að gera ef gengi íslensku krónunnar hækkar verulega.

Á þá að reyna að selja tómatana á innanlandsmarkaði?“

Enn fremur spyr Bjarni hvort ekki sé verið að mismuna fyrirtækjum í þessum rekstri ef Geogreenhouse geti komist hjá dreifingarkostnaði með því að hafa gróðurhús sín við túnfótinn hjá jarðvarmavirkjun. „Raforkukostnaður er um 25 til 30 prósent af rekstrarkostnaði garðyrkjubænda svo það er töluverð forgjöf ef einhver losnar við þann bagga,“ segir hann.

Júlíus Jónsson, forstjóri HS Orku, segir framleiðslugetu Reykjanesvirkjunar og virkjunarinnar í Svartsengi samtals um 170 megavött og magnsins vegna ætti ekki að vera vandkvæðum bundið að semja við Geogreenhouse. Fyrirtækið muni þurfa 6 megavött fyrir fyrsta áfanga en 36 megavött fyrir þriðja og síðasta áfangann, sem óvíst sé hvenær hefjist. „Við getum ekki, frekar en önnur orkufyrirtæki, tekið frá orku fyrir einhverja sem ætla kannski að nota hana í framtíðinni. Ef komið væri hins vegar til okkar með bindandi samning með skuldbindingum um 36 megavött myndum við gera eitthvað í því,“ segir Júlíus. jse@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×