Gagnrýni

Groundhog Day - fyrri hluti

Pétur Gunnarsson skrifar
Bækur. Sjálfstæð þjóð. Trylltur skríll og landráðalýður. Eiríkur Bergmann Einarsson. Veröld, Reykjavík, 2011 364 bls.



Eiríkur Bergmann birtir í Sjálfstæð þjóð. Trylltur skríll og landráðalýður greiningu sína á áhrifum þjóðernishugmynda sem mótuðust á tímum sjálfstæðisbaráttunnar á orðræðu íslensku stjórnmálastéttarinnar á lýðræðistímanum.

Þetta gerir hann með því að skoða umræður um þau mál sem brunnið hafa á þjóðinni á lýðveldistímanum varðandi samskipti við umheiminn.

„Í þjóðernisstefnunni sem mótaðist í sjálfstæðisbaráttunni á nítjándu öld má jafnvel finna sjálfan kjarnann í stjórnmálum landsins" segir Eiríkur og leggur upp með þá kenningu að rótfastar og íhaldssamar hugmyndir sem þróuðust í sjálfstæðisbaráttunni um fullveldi þjóðarinnar „móti enn afstöðu Íslendinga til stjórnmálalegra álitamála, sérstaklega þegar kemur að tengslunum við útlönd".

Eiríkur rekur goðsögnina til Jóns Jónssonar Aðils, sagnfræðings og alþýðufræðara, sem hér er settur á stall sem áhrifamesti stjórnmálaspekingur þessa lands síðustu hundrað ár.

Í endursögn Eiríks er arfleifð Aðils að finna í mýtu Íslendinga um sjálfa sig og sögu sína sem er einhvern veginn á þessa leið: Einu sinni var þjóð sem átti sér enga líka nema helst á gullöld Forn-Grikkja en glataði sjálfstæðinu og næstum því sjálfri sér þegar gerður var óráðssáttmáli við útlendan kóng. Eftir sex alda myrkur, lifnaði sjálfstæðisneistinn við, þjóðin rumskaði, hristi af sér erlenda ánauðarfjötra og reis úr öskustónni. Hún lofar nú sjálfri sér því að þola aldrei aftur niðurlægingu undir erlendri áþján. Það er heilög skylda þjóðhollra Íslendinga að standa sífellt vörð um fullveldið – ella glatast sjálfstæðið undir erlent yfirvald sem steypir í sömu glötun og gamli sáttmáli.

Og þarna er lykill að orðræðu íslenskrar stjórnmálastéttar í átakamálum um samskipti við umheiminn á lýðveldistímanum, segir Eiríkur. Eftir því sem líður á lesturinn hallast lesandinn að því að það sé óþægilega mikið til í þessu hjá honum. Umræðan um stóru málin í þjóðfélaginu sé einn allsherjar Groundhog Day þar sem í sífellu er lesið handrit eftir Jón Jónsson Aðils. Gildir þá einu hvort á dagskrá er NATO, EFTA, landhelgin, EES, ESB, AGS eða Icesave.

Eiríkur skrifar lipran texta enda er hann orðinn þjálfaður rithöfundur og hefur verið virkur þátttakandi í þjóðfélagsumræðunni um langa hríð. Verst er að þetta ævintýri Jóns Jónssonar Aðils stendur ekki fyllilega undir sífelldum endurflutningi – það verður leiðigjarnt aflestrar en það má vitaskuld hafa til marks um að kenningin gangi þokkalega upp.

Hvort sem lesandinn er staddur í umræðum um Atlantshafsbandalagið á fimmta áratug síðustu aldar eða um ESB á fyrsta áratug þessarar virðist hann fylgjast með sama menúettinum. Eftir því sem líður verða mælskubrögðin ýktari og yfirborðskenndari uns flatneskjan nær hámarki í umræðum um Icesave og ESB síðustu misserin.

Niðurstaðan: Niðurstaða af lestrinum er sú að sagan er ævintýri líkust en í bókarlok er hetjan enn í álögum, dæmd til að smjatta á sömu næringarlausu tuggunni. Hvort ævintýrið lýtur sömu lögmálum og önnur og hetjunni tekst áður en yfir lýkur að varpa af sér álögum Jóns Jónssonar Aðils kemur kannski í ljós í næsta þætti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×