Viðskipti innlent

Gengislánadómur féll bönkum í hag

Björn Þorri Viktorsson
Björn Þorri Viktorsson
Héraðsdómur Suðurlands kvað á föstudag upp dóm í máli Íslandsbanka gegn hjónum sem tóku gengistryggt lán hjá bankanum snemma árs 2008. Dómurinn er sá fyrsti sem fellur síðan Alþingi samþykkti lög um uppgjör gengislána og var því um prófmál að ræða.

Tekist var á um endurútreikning lánsins, í kjölfar ógildingar á gengistryggðum lánum bankans, og féll dómurinn Íslandsbanka í hag. Íslandsbanki hafði reiknað vexti lánsins, með hliðsjón af lægstu óverðtryggðu vöxtum Seðlabankans, frá útborgunardegi til dagsins í dag. Hjónunum sem bankinn stefndi þótti hins vegar óeðlilegt að uppgerðir gjalddagar væru endurreiknaðir. Gerðu þau því kröfu um að endurútreikningar giltu frá dómsuppsögu en ekki útborgunardegi. Til vara vildu þau láta útreikninga gilda frá útgáfudegi síðustu greiðslukvittunar og til þrautavara frá yfirtökudegi stefnanda á kröfunni.

„Úrskurðurinn er gríðarleg vonbrigði. Ekki bara fyrir þetta fólk heldur alla þá sem hafa trúað því og treyst að fullnaðarkvittanir hefðu raunverulegt gildi á Íslandi,“ segir Björn Þorri Viktorsson, lögmaður hjónanna, og bætir við: „Maður veltir því fyrir sér hvaða reglur er verið að móta í einkaréttarlegum viðskiptum þegar Alþingi kemur og ógildir með almennum lögum viðskipti sem eru löngu frágengin og jafnvel tíu ára gömul. Þetta er mjög umhugsunarvert og maður veltir því fyrir sér hvað sé næst.“- mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×