Viðskipti innlent

Gæti þýtt 29 milljarða kröfu

Úrskurður ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, um að aðstoðarkerfi fasteignaveðlána Íbúðalánasjóðs feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð, gæti þýtt kröfu á þrotabú fjögurra sparisjóða upp á 29 milljarða króna.

ESA úrskurðaði í gær að kerfið væri ekki í samræmi við ákvæði EES-samningsins og fór fram á að yfirvöld legðu það þegar í stað niður „og geri nauðsynlegar ráðstafanir til að endurheimta ósamrýmanlega aðstoð eigi síðar en í lok október 2011“. Þó segir í úrskurðinum að einstaka styrkir gætu samrýmst EES-samningnum og þurfi því ekki að endurheimta. Krafan gæti því orðið mun lægri.

Með neyðarlögunum sem sett voru 6. október 2008 var Íbúðalánasjóði heimilað að kaupa skuldabréf fjármálafyrirtækja með veði í íbúðarhúsnæði. Fjórir sparisjóðir nýttu sér ákvæðið; Byr, Sparisjóður Keflavíkur, Sparisjóður Bolungarvíkur og Spron.

Kaup Íbúðalánasjóðs námu um 29 milljörðum. Í öllum tilfellum er um að ræða lánasöfn sparisjóða sem komnir eru í slitameðferð. Samtals eru lánin rúmlega 7.600. Ríkissjóður veitti 33 milljarða króna aukalega til Íbúðalánasjóðs árið 2010.

Gunnhildur Gunnarsdóttir, sviðsstjóri lögfræðisviðs Íbúðalánasjóðs, segir gagnrýni ESA lúta að því að á þessum tíma hafi verið ólíklegt að aðili á markaði myndi kaupa lánasöfn með þessum hætti. Því geti falist ríkisaðstoð í kaupunum. Þá gagnrýni ESA að heimildin hafi verið ótímabundin og opin en ekki bundin við vissar fjárhæðir.

Íbúðalánasjóður mun funda með fulltrúum fjármála- og velferðarráðuneytis í dag og fara yfir næstu skref í málinu.- kóp






Fleiri fréttir

Sjá meira


×