Viðskipti innlent

Framtíðarsýn byggir á nýjum virkjunum

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir áætlanir um fjármögnun virkjanaframkvæmda Landsvirkjunar næstu fimmtán árin ekki hafa verið lagðar fram.Fréttablaðið/GVA
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir áætlanir um fjármögnun virkjanaframkvæmda Landsvirkjunar næstu fimmtán árin ekki hafa verið lagðar fram.Fréttablaðið/GVA
„Framtíðarsýnin byggir á því að nýjar virkjanir verði byggðar. Ef ekkert verður byggt þá verður sagan önnur. En það verður ekkert slæm saga,“ segir Ásgeir Jónsson, sérfræðingur hjá fjármálafyrirtækinu GAMMA og einn höfunda skýrslu um efnahagsleg áhrif af rekstri og arðsemi Landsvirkjunar til ársins 2035.

Í skýrslunni kemur fram að áætlaðar arðgreiðslur Landsvirkjunar til ríkissjóðs geti numið allt frá 30 til 112 milljörðum króna á ári. Allt fer það eftir því hvenær ráðist verði í nýjar framkvæmdir, hvort sæstrengur verði lagður héðan til meginlands Evrópu, þróun raforkuverðs, nýjum samningum um raforkusölu og endurnýjun á eldri samningum. Hæsta arðgreiðslan er álíka há og hið opinbera leggur til allra framhalds- og háskóla landsins, menningar, íþrótta- og trúmála auk löggæslu, dómstóla og fangelsa.

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, hefur áður boðað þessa sömu framtíðarsýn. Hann segir hana öðru fremur mikilvæga svo hægt verði að ákveða hvert stefna eigi með Landsvirkjun.

Framtíðarsýn Landsvirkjunar gerir sem fyrr ráð fyrir tvöföldun raforkuframleiðslu á næstu fimmtán árum, niðurgreiðslu skulda og að arðgreiðslur hefjist fyrir árið 2020. Hörður segir margar forsendur verða að ganga upp til að framtíðarsýn Landsvirkjunar geti orðið fyllilega að veruleika.

Hann bendir á að Landsvirkjun sé enn of skuldsett og því sé ein forsendan sú að þegar viðunandi skuldahlutfalli verði náð muni arður verða greiddur út. Í skýrslunni er gert ráð fyrir að ríkissjóður fái fyrstu arðgreiðsluna eftir tvö ár og verði hún um fjórðungur af landsframleiðslu.

Árið 2021 munu þær aukast hratt og gætu farið í um fjögur til sex prósent af landsframleiðslu áratug síðar þegar fyrirhuguðu framkvæmdatímabili Landsvirkjunar lýkur, segir Hörður.

Ekki hafi verið lagðar fram áætlanir um fjármögnun virkjanaframkvæmda þótt þeirra sé getið í skýrslu GAMMA. „Við gerum aðeins ráð fyrir að hafa aðgang að fjármagninu þegar þar að kemur, það er sérstakt verkefni,“ segir Hörður.

jonab@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×