Viðskipti innlent

Byr átti að skila ársuppgjöri í mars

Endurútreikningar á gengislánum Byrs eru taldir hafa sett skarð í afkomu bankans. 
Fréttablaðið/pjetur
Endurútreikningar á gengislánum Byrs eru taldir hafa sett skarð í afkomu bankans. Fréttablaðið/pjetur
„Það tekur langan tíma að búa til fyrsta ársreikninginn eftir svona mikil umskipti. Það er umfangsmeira verk en alla jafna,“ segir Jón Finnbogason, forstjóri Byrs.

Uppgjör bankans fyrir síðasta ár átti lögum samkvæmt að liggja fyrir í mars en hefur enn ekki verið lagt fram. Að sögn Jóns skýrist töfin ekki síst af því að samhliða uppgjörinu þarf að birta stofnefnahagsreikning fyrir nýja bankann sem reis á rústum þess gamla í apríl í fyrra. Til samanburðar liðu um þrettán mánuðir frá falli gamla Landsbankans og þar til fyrsta uppgjör nýja bankans var birt.

Óendurskoðað uppgjör hefur legið frammi í rafrænu gagnaherbergi sem bjóðendur í bankann hafa fengið að sjá og segja þeir það ekki gefa skýra mynd af stöðunni.

Þeir sem Fréttablaðið hefur rætt við segja erfitt að átta sig á fjárhagsstöðu Byrs. Þeir segja endurmat á útlánasafni hans í kjölfar nýlegra gengislánadóma hafa brennt gat í bækur bankans og útiloka ekki að afkoma hans hafi verið neikvæð í fyrra um fjóra til níu milljarða króna. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×