Viðskipti innlent

Pakkningar minnka en verð helst óbreytt

Toblerone.
Toblerone.
Framleiðendur ýmiss konar neytendavöru á alþjóðamarkaði hafa undanfarin misseri tekið á það ráð að minnka innihald neytendapakkninga en halda verði óbreyttu. Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC, en fjölmargar vörur af þessu tagi eru fluttar inn hingað til lands og hafa því bein áhrif á íslenska neytendur.

Til dæmis nefnir BBC að sápustykki hafi minnkað sem og sælgætisstykki. Þannig hafi súkkulaðistykki frá Cadbury's minnkað um 20 grömm og Toblerone hafi minnkað um einn þríhyrning.

Fyrirtækin bera við stórhækkuðu hráefnisverði á heimsmörkuðum og þetta sé eina leiðin til að forðast hækkanir, en neytendafrömuðir segja þetta fela í sér hækkun og sé villandi fyrir almenning.

Þuríður Hjartardóttir, framkvæmdastjóri Neytendasamtakanna, segir í samtali við Fréttablaðið að þótt þess háttar mál hafi ekki komið inn á borð samtakanna nýlega, sé ástæða til þess að brýna fyrir neytendum að fylgjast með magneiningaverði.

„Þegar fólk er að bera saman verð almennt, skiptir máli að bera saman verð í samræmi við magn, til dæmis lítraverð eða kílóverð frekar en stykkjaverð."

Finnur Geirsson, forstjóri sælgætisgerðarinnar Nóa Siríus, segir svona nokkuð ekki hafa viðgengist hjá sínu fyrirtæki þó vissulega hafi hráefni hækkað í verði. Framleiðendur erlendis séu eflaust að bregðast við þeirri þróun.

„Við höfum verið að samræma okkar pakkningastærðir, en það hefur verið til að auka hagkvæmni í framleiðslu, en ekki verið í þeim tilgangi að hækka útsöluverð miðað við magn."- þj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×