Viðskipti innlent

Fengu 13 milljarða í arð í fyrra

Rekstur Iceland Foods hefur skilað eigendum sínum vænum arði í gegnum árin.
Rekstur Iceland Foods hefur skilað eigendum sínum vænum arði í gegnum árin.
Breska matvörukeðjan Iceland Foods hagnaðist um 155,5 milljónir punda, jafnvirði 29 milljarða króna, fyrir skatt í fyrra. Til samanburðar nam hagnaðurinn 135,4 milljónum punda árið 2009.

Velta verslunarinnar nam 2,4 milljörðum punda í fyrra, rúmum fjögur hundruð milljörðum króna, og er það fimmtán prósenta aukning á milli ára.

Miðað við afkomuna má ætla að markaðsverðmæti matvörukeðjunnar liggi á bilinu 1,2 til 1,5 milljarðar punda, eða allt að 280 milljarðar króna. Skilanefnd gamla Landsbankans vinnur að sölu á 67 prósenta hlut sínum í versluninni og gæti verðmæti hans þessu samkvæmt numið á bilinu átta hundruð milljónum til einum milljarði punda, allt að tæpum 190 milljörðum króna, miðað við gengið krónu gagnvart pundi.

Iceland Foods var áður að mestu í eigu Baugs Group og tengdra félaga og gjarnan líkt við gullnámu, slíkur var arðurinn af rekstri verslunarinnar. Þrotabú gamla Landsbankans fékk þrettán milljarða króna í arð í fyrra vegna afkomunnar árið 2009. Ekki hefur verið tekin ákvörðun um arðgreiðslur vegna afkomunnar í fyrra, samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins.- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×