Viðskipti innlent

Aukið frelsi veldur meiri skattsvikum

Sviðsstjóri hjá Ríkisskattstjóra segir óheft frelsi og undanþágur í lögum leiða af sér óvenjuleg og oft ólögleg viðskipti, aukið flækjustig og undanskot á sköttum. Mynd/Stefán
Sviðsstjóri hjá Ríkisskattstjóra segir óheft frelsi og undanþágur í lögum leiða af sér óvenjuleg og oft ólögleg viðskipti, aukið flækjustig og undanskot á sköttum. Mynd/Stefán
aðalsteinn hákonarson
Svört atvinna og skipulögð glæpastarfsemi getur þrifist innan félaga á Íslandi án sýnilegra vandkvæða vegna sveigjanleika í félagafrelsi, að mati Aðalsteins Hákonarsonar, sviðsstjóra eftirlitssviðs Ríkisskattstjóra. Hann skrifar grein í nýjasta tölublað fréttablaðs RSK, Tíund.

Aðalsteinn segir að þeir sem vinni við skatteftirlit sjái þess merki að aukið frelsi á sumum sviðum atvinnulífsins, minna eftirlit og undanþáguákvæði í lögum leiði af sér vaxandi tilhneigingu til skattasniðgöngu. Það séu ekki smámunir, heldur skipulagður ásetningur sem oftar en ekki sé stór í sniðum. Jafnvel sé um að ræða skipulagða glæpastarfsemi. Undanþágur og aukið frelsi hafi veitt lögbrjótum meira skjól og fleiri dæmi séu nú en áður um að einstaklingar hafi búið til eigin reglur og aðferðir við skattskil í þessu skjóli.

Nánast ótakmarkað frelsi til að stofna félög hefur orðið til þess að menn eigi fjölmörg slík og ef einhverju þeirra gengur illa er það skilið eftir í reiðuleysi, eignir þess seldar til annars félags eða teknar í notkun af öðru félagi. Dæmi séu um félög sem hefji viðskipti og semji aldrei ársreikning eða skili skattframtali. „Þegar stjórnvald fer að amast við slíkum félögum þá eru þau yfirgefin eins og sökkvandi skip og nýtt félag stofnað eða tekið í notkun til að halda áfram.“

Þá segir Aðalsteinn að æ algengara sé að félög kaupi eða eignist aflahlutdeild eða aflamark án þess að eiga nokkurt skip. „Oft eru engar upplýsingar um undirliggjandi magn þótt viðskiptin séu upp á hundruð milljóna.“

Einnig sé félögum skipt upp í öllum mögulegum tilgangi, oft til skattahagræðingar. Þá hafi samrunar fyrirtækja farið úr böndunum og gangi út á að búa til veikari einingar en áður. Þessi staðreynd blasi við í hundraðavís í íslensku viðskiptalífi og sé án efa einn af orsakavöldum hrunsins.

Hefðbundið skatteftirlit með núverandi mannafla hefur engan möguleika á að ráða við allt sem aflaga fer í skattaumhverfinu, segir Aðalsteinn. Þeir sem valdið hafa mættu leiða hugann að því hvort ekki sé best að lagfæra regluverkið með því að setja inn aukin skilyrði og takmörk, og einnig bæta þau úrræði sem bæði skattyfirvöld og innheimtumenn skatta geta gripið til.

„Skattyfirvöld þyrftu einnig úrræði til að bregðast við skipulögðum undanskotum.“ Þau ættu til dæmis að geta fært skyldur félaga með takmarkaða ábyrgð yfir á eigendur þeirra persónulega, ef félögin skila ekki gögnum.

thorunn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×