Viðskipti innlent

Fyrsta skrefið í afléttingu hafta

Már Guðmundsson Seðlabankastjóri segir töluverðan áhuga hafa verið á fyrsta gjaldeyrisútboðinu í gær.fréttablaðið/gva
Már Guðmundsson Seðlabankastjóri segir töluverðan áhuga hafa verið á fyrsta gjaldeyrisútboðinu í gær.fréttablaðið/gva
Seðlabanki Íslands hélt í gær útboð á gjaldeyri fyrir eigendur aflandskróna. Alls bárust tilboð upp á rúmlega 60 milljarða króna en fimmtán milljarðar voru í boði að hámarki. Tilboðum var tekið fyrir 13,4 milljarða, á meðalverðinu 218,9 krónur fyrir evru.

„Það er töluverður áhugi. Þetta er fjórföld sú upphæð sem við buðum út, við náum að selja megnið af því sem við ætluðum okkur og það á verði sem felast ekki nein stórtíðindi í,“ segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri og bætir við: „Bæði meðalverð og lægsta verð eru fyrir neðan það sem er í gangi á aflandsmarkaði. Það er vísbending um það, sem við vissum, að aflandsmarkaðurinn er kannski ekki alveg marktækur vegna lítillar veltu. Því er líklegra að aflandsgengi muni nálgast álandsgengið en öfugt.“

Útboðið er liður í áætlun stjórnvalda og Seðlabankans um afnám gjaldeyrishafta en líklegt er að fleiri slík útboð verði á næstunni. Með útboðunum gefst erlendum eigendum króna tækifæri til að skipta þeim í gjaldeyri. Már segir þetta skref hafa heppnast ágætlega og að næsta skref sé að selja þessar krónur aftur fyrir gjaldeyri. Frá því að áætlunin um afléttingu gjaldeyrishafta var kynnt í mars síðastliðnum hafa ýmsir gagnrýnt að ekki sé lögð meiri áhersla á að losa höftin eins fljótt og auðið er. Már segist vona að hægt sé að losa höftin á skömmum tíma.

„Við höfum alltaf sagt að við viljum fara eins hratt og hægt er en ekki hraðar en óhætt er og það er ekkert í þessu útboði sem segir til um að þetta verði erfiðara en reiknað var með. Við þurfum hins vegar fleiri útboð áður en hægt er að leggja mat á það,“ segir Már.

Þá leggur Már áherslu á að áætlunin sé ekki tímasett heldur fari hraðinn eftir því hversu vel gangi. „Við skulum vona að við getum gert þetta fljótt en við getum ekki byggt okkar framkvæmdir á óskhyggjunni einni saman,“ segir Már. - mþl






Fleiri fréttir

Sjá meira


×