Viðskipti innlent

Gjaldeyrishöftin tefja fyrir bata

Þorvaldur Gylfason
Þorvaldur Gylfason
Þó svo að efnahagsbati á Íslandi hafi verið ótrúlega góður eftir eitt mesta hrun sögunnar standa gjaldeyrishöft nú í vegi fyrir frekari bata. Þetta kemur fram í grein eftir Þorvald Gylfason, prófessor við hagfræðideild Háskóla Íslands, sem birtist á hagfræðivefnum Vox fyrir helgi.

Þorvaldur segir Íslendinga og aðrar þjóðir sem búa við höft kunnugar leiðum til að fara fram hjá þeim. Þannig gangi sögur af því að fólk sem hyggur á ferðalög til útlanda kaupi dýr armbandsúr og selji með afslætti ytra. Með því fái ferðalangarnir erlendan gjaldeyri umfram þær 2.150 evrur sem þeir mega taka með sér út samkvæmt gjaldeyrishöftum. „Velkomin aftur á sjötta áratuginn,“ segir Þorvaldur í grein sinni.

Þorvaldur rifjar upp að í gjaldeyriskreppunni í SA-Asíu undir lok tíunda áratugar síðustu aldar hafi ekki verið gripið til hafta líkt og hér. Efnahagslífið þar hafi því jafnað sig tiltölulega fljótt.

Höftin segir hann valda miklum skaða; lífeyrissjóðir geti ekki fjárfest erlendis og verði að láta sér lynda að fjármagna skuldsetningu hins opinbera með kaupum á ríkisskuldabréfum; útflutningsfyrirtæki flyti gjaldeyri ekki heim og fjárfestar ávaxti pund sitt með fasteignakaupum þar sem aðrir kostir séu rýrir. Af þessum sökum verði efnahagsbati hægari en spáð var, afnema verði höftin eins fljótt og auðið sé. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×