Viðskipti innlent

Heildarkröfur á fjórða milljarð

Árni Sigfússon
Árni Sigfússon
„Nú er loks búið að koma þessari skuldastöðu hafnarinnar fyrir horn. Þetta hefur tekið langan tíma og málið farið nokkra hringi,“ segir Árni Sigfússon, bæjarstjóri í Reykjanesbæ.

Bærinn náði fyrir helgi langtímasamningum við alla nítján kröfuhafa Reykjaneshafnar um endurfjármögnun skulda. Kröfuhafar Reykjaneshafnar eru helstu lífeyrissjóðir landsins. Leitað var eftir samþykki þeirra allra, að sögn Árna.

Heildarkröfur eru vel á fjórða milljarð króna. Kröfuhöfum bauðst að selja kröfur sínar til hafnarinnar í skiptum fyrir verðtryggð skuldabréf sem bera sex prósenta vexti. Reykjanesbær, sem á allt hlutafé Reykjaneshafnar, er í ábyrgð fyrir öllum skuldum.

Árni segir áætlanir Reykjanesbæjar sem lagðar voru fram í samningagerð við kröfuhafa varfærnar. „Við gerum ráð fyrir kísilverinu en ekki áætlunum um álver sem munu skila miklum tekjum fyrir höfnina. Önnur verkefni fram undan eru ekki í áætluninni,“ segir hann. Þar á meðal er hugsanlegur níu hundruð milljóna króna ríkisstyrkur fyrir íslenskar stórskipahafnir. „Við teljum okkur eiga mikið inni,“ segir Árni.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×