Viðskipti innlent

Fjárfesting löngum lítil í sjávarútvegi

Ólína Þorvarðardóttir.
Ólína Þorvarðardóttir.
„Fjárfesting í sjávarútvegi hefur nánast ekki verið nein í tíu ár,“ segir Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og varaformaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar Alþingis.

Hún telur Alþýðusamband Íslands og aðra hafa farið fram úr sér með útreikningum um væntanleg efnahagsleg áhrif frumvarps um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu.

Í drögum að minnisblaði Alþýðusambandsins kemur fram að breytingarnar veiki rekstrargrundvöll sjávarútvegsfyrirtækja, fjárfestingar dragist saman og geti það staðið í vegi fyrir því að gengi krónunnar styrkist.

Ólína segir viðbrögð útgerðarfyrirtækja landsins og hagsmunaaðila gegn breytingum á kvótafrumvarpinu of harkaleg. Þvert á það sem útgerðin haldi fram felist atvinnuöryggi í fimmtán ára nýtingarsamningi. Fáar greinar búi við slíkt.

Fyrstu umræður um kvótafrumvarpið standa nú yfir. Að þeim loknum fer það fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd Alþingis. Hópur hagfræðinga á vegum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis vinnur hagfræðilega úttekt á frumvarpinu og á hún að vera tilbúin þegar umsagnir við það berast. Þá mun úttektin liggja til grundvallar áliti nefndarinnar þegar hún afgreiðir málið aftur til þingsins.

„Mér finnst rétt að bíða eftir úttektinni,“ segir Ólína.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×