Viðskipti innlent

Erum í óþægilega góðri æfingu

guðjón arngrímsson
guðjón arngrímsson
„Staðreyndin er sú að við erum í óþægilega góðri æfingu síðan í fyrravor. Það vefst ekki fyrir okkur hvað þarf að gera þegar svona lagað fer í gang," segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair, um viðbrögð fyrirtækisins vegna eldgossins í Grímsvötnum. Hann bætir við að meðan framhaldið sé enn óljóst séu aðgerðir einungis skipulagðar hálfan dag fram í tímann. „Það er of snemmt að hugsa um langtímaáhrifin. Nú fyrst í stað eru helstu verkefnin sem þarf að leysa úr taktísk. Að ná sambandi við þúsundir viðskiptavina um allan heim, sem allir þurfa á sinni persónulegu lausn að halda."

Öllu flugi Icelandair nú í morgun hefur verið aflýst, en alls voru um sex þúsund farþegar bókaðir í þau flug sem felld voru niður síðasta rúma sólarhringinn.

Guðjón fundaði í gærmorgun ásamt fulltrúum stjórnvalda og fleiri aðilum úr flug- og ferðaþjónustu, en Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra varð innlyksa á Hornafirði og komst ekki á fundinn. Erna Hauksdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, sem einnig var á fundinum, segir tilgang hans einkum hafa verið að fá réttar upplýsingar frá almannavörnum og gæta þess að réttum upplýsingum sé komið til skila til fólks, fyrirtækja og fjölmiðla, innanlands og utan. „Við vonumst bara til þess að gosið verði ekki langvarandi," segir Erna, en hópurinn fundar aftur fyrir hádegi í dag.- kg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×