Skoðun

Hvernig á lögreglumaður að vinna vinnu sína?

G. Jökull Gíslason skrifar
Í vikunni var þingfest ákæra á hendur lögreglumanni fyrir meint brot í starfi. Hið meinta brot er að hafa unnið vinnu sína af kostgæfni. Það hafði afleiðingar í för með sér að ungur maður fótbrotnaði eða réttara sagt ungur ökuníðingur sem var að reyna að stinga af frá umferðarlagabroti og hlýddi engum stöðvunarmerkjum og gerði sitt ítrasta til að flýja frá lögreglu. Í eftirförinni fótbrotnaði hann þegar hann reyndi að hlaupa frá bíl sínum eftir að hafa lokast af í botngötu.



Nú situr lögreglumaðurinn sem veitti honum eftirför sjálfur fyrir dómara sem á eftir að meta hvort hann hafi gerst brotlegur við vinnu sína. Allt þetta mál er hið versta, bæði fyrir lögreglumanninn sjálfan og ekki síður hinn almenna borgara, vegna þess að ákæra af þessu tagi sýnir að lögreglumenn njóta takmarkaðar verndar í starfi sem fyrir er í fólgin mikil áhætta, sérstaklega ef á að vinna lögreglustarfið vel.



Á þrettán ára starfsferli hef ég unnið með mörgum lögreglumönnum, langflestum úrvals mönnum en inni á milli voru einstaklingar sem voru hræddir við vinnu sína og þorðu ekki að taka ákvarðanir eða fara út í aðgerðir af ótta við afleiðingar. Það eru verstu lögreglumenn sem ég hef unnið með. Lögreglustarfið er ekki í dags daglegu umhverfi þar sem allir einstaklingar eru góðir og gegnir borgarar heldur í jaðri samfélagsins þar sem níðingsverk, óheilindi og illur ásetningur á sér stað og það er hlutverk lögreglumanna öðru fremur að halda þessum myrkari hluta daglegs lífs í skefjum og sjá þannig til þess að venjulegt fólk geti lifað sínu venjulega lífi í friði. En til þess að vera vernd samfélagsins þurfa lögreglumenn sjálfir að njóta verndar og það verður að gefa þeim nauðsynlegt svigrúm til þess að vinna sína vinnu.



Hvaða skilaboð er þá verið að senda með því að gefa út ákærur fyrir brot sem unnin eru í starfi og eru í raun fólgin í því að vinna vinnu sína? Nokkrar ákærur hafa verið gefnar út af slíkum atvikum og dómar fallið og í sumum tilvikum án þess að eiginlegt tjón eigi sér stað. Í héraðsdómi þar sem lögreglumaður var ákærður fyrir að aka ólátasegg tíu mínútna leið úr miðbæ Reykjavíkur var lögreglumaðurinn sýknaður og dómarinn varði þó nokkru af rökstuðning sínum í að velta fyrir sér starfsumhverfi lögreglu og allsherjarreglu. Sá dómur er fyrir margt sérstakur þar sem hann er eini dómurinn sem til er á Íslandi þar sem dómari gefur þessum atriðum gaum en fordæmisgildi hans er ekkert þar sem dómnum var að hluta til snúið í Hæstarétti án þess að farið væri út í slík atriði í rökstuðningi.

Nú ætla ég ekki að útiloka að lögreglumaður eigi eftir að brjóta alvarlega af sér né segja að ekki eigi að kæra slík mál, heldur vil ég benda á að eðli starfsins vegna þurfi að fara varlega í að gefa út slíkar ákærur og lögreglumenn verði að hafa svigrúm til að geta unnið vinnu sína án þess að stærsti áhættuþátturinn í þeirra annars hættulega starfi sé að sitja uppi með ákærur fyrir atvik sem eru hluti af þeirra starfsumhverfi.



Erlendis þekkist það víða að fagnefndir meti slík atvik út frá eðli lögreglustarfsins áður en ákvörðun um ákæru er gefin út. Hér á landi fá slík mál enga slíka faglega umfjöllun heldur er það sami aðili sem rannsakar meint brot og gefur út ákæru, en það á ekki við um nein önnur brot. Þá er það orðið afar áhættusamt að vinna sem lögreglumaður þegar lögreglumenn eiga yfir höfði sér háar bótakröfur frá einstaklingum sem ættu í raun betur heima hjá ríki á grundvelli húsbóndaábyrgðar.



Með þessari grein vil ég vekja lesendur til umhugsunar um það hvernig lögreglumenn þeir vilja hafa. Viljum við lögreglumenn sem vinna óhræddir af bestu samvisku við það að sporna við afbrotum eða lögreglumenn sem vilja frekar heima sitja vegna ótta við að hver einasta misfella verði kærð? Í því máli sem nú er kært fyrir hefði það verið hægur leikur fyrir lögreglumanninn að missa af ökuníðingnum og koma sér þannig frá áhættu um hugsanlegar afleiðingar. Þess í stað væri miklu einfaldara að kæra aðeins þá sem eru löghlýðnari og stoppa af sjálfsdáðum. Eða bara gera sem allra minnst. Eru það skilaboðin sem við viljum senda til lögreglumanna?



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×