Viðskipti innlent

Þýddi 25 milljarða tekjulækkun

Ólína vill vita hvaða tekjur fylgdu fleiri skattþrepum.
Ólína vill vita hvaða tekjur fylgdu fleiri skattþrepum.
Ríkið myndi verða af um 25 milljarða króna tekjum að lágmarki yrðu skattleysismörkin hækkuð úr 118 þúsundum króna á mánuði í 150 þúsund. Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Ólínu Þorvarðardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.

Samdráttur í tekjum ríkisins yrði enn meiri yrðu skattleysismörkin hækkuð í 200 þúsund krónur, eða á sjöunda tug milljarða, samkvæmt áætlun fjármálaráðuneytisins.

Í fyrirspurn Ólínu er einnig óskað eftir mati á því hversu miklar tekjur ríkissjóður hefði af því að bæta við skattþrepum.

Í svari ráðherrans kemur fram að tekjur ríkisins myndu aukast um 1,2 milljarða króna yrði 55 prósenta skattur lagður á mánaðartekjur yfir 1,2 milljónum króna og 65 prósent á tekjur yfir tveimur milljónum.

Þar segir enn fremur að tekjur ríkisins gætu aukist um 650 milljónir króna yrði 55 prósenta skattur lagður á tekjur yfir tveimur milljónum króna og 70 prósenta skattur á tekjur yfir þremur milljónum króna.

Í svarinu kemur fram að á síðasta ári hafi 654 einstaklingar verið með mánaðartekjur yfir 1,2 milljónum króna á mánuði. Þar af höfðu 126 tekjur yfir tveimur milljónum króna. - bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×