Viðskipti innlent

Tengist ekki skuldauppgjöri

Þorsteinn Már og Guðmundur greindu starfsfólki fyrirtækisins frá breytingunum. fréttablaðið/heiða
Þorsteinn Már og Guðmundur greindu starfsfólki fyrirtækisins frá breytingunum. fréttablaðið/heiða
Starfsmannafundur Hjá nýju félagi, Útgerðarfélagi Akureyrar, munu um 150 fyrrverandi starfsmenn Brims starfa.fréttablaðið/Heiða
Kaup Samherja á eignum Brims hf. á Akureyri tengjast ekki skuldauppgjöri Brims við Landsbankann, að sögn Guðmundar Kristjánssonar forstjóra. Breytt eignarhald hefur ekki teljandi áhrif á starfsmannahald og rekstur.

„Þetta eru einfaldlega viðskipti. Við vorum búnir að eiga þetta í sjö ár og komumst að samkomulagi við heimamenn um sölu á þessum eignum. Við vorum sáttir við verðið og kveðjum Akureyri sáttir,“ segir Guðmundur.

Sala eignanna á Akureyri tengist ekki stöðu Brims innan Landsbankans, að sögn Guðmundar sem er aðaleigandi félagsins. Skuldastaða Brims hefur verið nokkuð til umfjöllunar í fjölmiðlum eftir efnahagshrunið 2008. Í Kastljósi í febrúar 2010 sagði að skuldir Brims og Guðmundar Kristjánssonar og tveggja eignarhaldsfélaga sem tengjast Brimi voru samtals 24 milljarðar króna í Landsbankanum sumarið 2008. Ekki fengust upplýsingar um skuldastöðu Brims hjá Landsbankanum í gær. Hins vegar fékkst staðfest að bankinn beitti engum þrýstingi og frumkvæði að viðskiptunum kom frá Brimi.

Viðskiptin um helgina eru þau stærstu í íslenskum sjávarútvegi um árabil. Kaupverðið er 14,5 milljarðar króna og til nýs dótturfélags, Útgerðarfélags Akureyrar, gengur fiskvinnsla á Akureyri og Laugum, ísfisktogararnir Sólbakur og Mars auk 5.900 tonna aflaheimilda í þorski, ýsu, steinbít og skarkola. Samherji leggur fram 3,6 milljarða en Landsbankinn fjármagnar tæpa 11 milljarða af kaupverðinu og verður viðskiptabanki ÚA.

Guðmundur segir að frá 2008 virðist hafa gleymst að menn verði að hafa viðskipti. „Hér eru báðir aðilar sáttir og við fögnum því að heimamenn koma aftur að þessu.“ Spurður um hvort hann hafi hagnast á viðskiptunum segir Guðmundur að eftir bankabóluna taki hann öllum fregnum um tap og hagnað með fyrirvara. Hann segir Brim munu einbeita sér að útgerð og sjófrystingu en félagið er áfram eitt stærsta sjávarútvegsfélag landsins.

Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, og Guðmundur héldu sameiginlega starfsmannafund í gær. Þar kom fram að starfsfólk þyrfti ekki að kvíða, enda væru engar miklar breytingar í farvatninu hvað varðar rekstur eða starfsmannahald.

svavar@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×